11 Fornleifar, bæjarstæði, miðaldakirkja

Á miðöldum var Reykholt þekkt lærdómssetur og Snorri Sturluson lét reisa virki í kringum húsin. Í fornleifauppgreftri sem fram hefur farið á hluta svæðisins hafa komið fram minjar um glæsilegt höfðingja­setur. Þar á meðal eru mannvirki sem tengjast notkun heita vatnsins og gufunnar í Reykholti, gufustokkur og hús sem hefur verið hitað upp. Notkun þess er óviss, en það gæti hafa verið nýtt sem baðhús – gufubaðhús, ölgerðarhús eða jafnvel til skinnahreinsunar. Húsgrunnurinn er undir grænni torfu en myndir af honum og fleiri minjum sem komu í ljós við uppgröft eru inni á sýningu Snorrastofu. Á fornminjasvæðinu er líka tyrft yfir þar sem bogatröppurnar liggja upp úr göngunum sem lágu um 30 metra leið frá Snorralaug upp að húsunum innan virkis.

Í Reykholti hefur verið kirkja frá því á elleftu öld – og við uppgröft kom í ljós að hún hafði verið reist af grunni nokkrum sinnum á sama stað. Einna stærst var stafkirkja sú sem byggð var á þrettándu öld, öld Snorra Sturlusonar. Kirkjan stóð utan virkis í kirkju­garðinum miðjum. Síðast var kirkja á þessum stað byggð upp um 1835 í tíð sr. Þorsteins Helgasonar. Sú kirkja var sú eina í héraðinu sem var lögð spónaþaki en ekki úr torfi.

Laufeyjarlundur

Lundurinn var frá því um miðja síðustu öld gróskumikill garður, umhverfis Útgarða, hús skólastjórahjónanna Þóris Steinþórssonar og Laufeyjar Þórmundardóttur, en hún átti allan heiður af garðin­um. Ræktun í honum var við haldið þó hjónin flyttu en það voru grænir fingur Laufeyjar, Lullu eins og hún var kölluð, sem fylltu menn bjart­sýni um að á staðnum væri hægt að rækta tré og runna og litríkan blómgróður.

Visitor’s Reception’s Opening Hours

1 May – 31 August:
every day 10 – 17

1 Sept. – 30 April:
weekdays 10 – 17
Otherwise by arrangement.