
775 ár frá hryðjuverki Sunnlendinga
Í dag – 23. september 2016 eru 775 ár frá því að Sunnlendingar undir forystu Gissurar Þorvaldssonar brutu sér leið inn í virkið í Reykholti, og frömdu þar hryðjuverk; drápu Snorra Sturluson sagnaritara í Reykholti.
Í Sturlungu segir frá því er Gissur Þorvaldsson hélt fund með Kolbeini Arnórssyni og fleiri samsærismönnum á Kili – líklega 20. september þar sem dregin voru upp konungsbréf, þar sem á stóð að að Gissur skyldi láta Snorra fara utan hvort sem honum þætti ljúft eða leitt eða drepa hann að öðrum kosti fyrir það að hann hefði farið til Íslands í banni konungs árið 1239. Hákon konungur hefði talið Snorra landráðamann við sig. Kvaðst Gissur nú vilja fara í Reykholt og handtaka Snorra – og virðast aðrir samsærismenn hafa trúað þeirri fyrirætlan.
Svo segir í frásögn Óskars Guðmundssonar í ævisögu Snorra:
Herflokkar nálgast Reykholt
„Var nú hafist handa, Gissur skipaði menn í flokka undir forystu sjálfs sín og þeirra frænda, en fyrst sendi hann bræðurna Árna beisk og Svart í njósnaleiðangur til Borgarfjarðar. Sjálfur hélt hann vestur með sjötíu manna flokk, það var fjölmennasti herflokkurinn. Hann lét Loft biskupsson koma með sveit manna nokkru síðar. Og til að fá þriðja flokkinn sendi Gissur Klæng frænda sinn á Kjalarnes að safna liði sem hann stefndi einnig til Reykholts. Kolbeinn fór með fjögur hundruð manna sveit vestur að Kvennabrekku í Dölum til að svipta Órækju, Tuma og Sturlu sagnaritara möguleikanum á að safna liði og halda suður til varnar Snorra.
Snorri varnarlaus
Snorri hagaði sér eins og hann ætti sér einskis ills von. Hann lét ekki manna vörð um virkið mikla sem hann hafði látið gera á sínum tíma um húsin í Reykholti, né hafði hann neina flokka undir vopnum, þótt hann hefði séð ófriðarblikur á lofti. Þegar Snorri hafði áður átt von á sendingum hafði hann safnað liði, og náði þá saman hundruðum manna sér til varnar og sýnis.
Nú var hvergi glaðbeittur vörður á vakt. Depurð umlukti staðinn sem dúraði í næturhúminu. Skáldið var mætt mjög, eftir fráfall Hallveigar, tæpum tveimur mánuðum áður. Snorri var sinnulaus, daufur og tók ekki til varna. Hann svaf.
Aðförin 23. september 1241
Það var drungalegt í dalnum. Aðfaranótt 23. september kom Gissur og hans sjötíu manna flokkur fyrstur í Reykholt. Á staðnum var Sigurður sem kallaður var vegglágur, norskur maður sem verið hafði kertissveinn Skúla hertoga og kom svo til landsins með Snorra 1239. Hvorki hann né aðrir staðarins menn áttu von svo válegrar heimsóknar, en Sigurður hugsaði með sér að hann skyldi einhvern tíma höggva til hefnda bæru aðfararmenn vopn á húsbónda hans. Illræðismennirnir brutu upp skemmuna sem Snorri svaf í. Hann þaut upp og úr svefnskemmunni í litluhúsin sem voru við skemmuna. Þar hitti hann Arnbjörn prest og ræddu þeir hvað gera skyldi. Varð að ráði að Snorri
gengi í kjallarann undir loftinu.
Eigi skal höggva!
Gissur var kunnugur húsakosti í Reykholti, hér hafði verið haldið brúðkaup hans og Ingibjargar Snorradóttur. Hann leitaði með mönnum sínum Snorra í húsunum. Þegar hann mætti Arnbirni presti og spurði um Snorra varðist hann fregna. Gissur kvað þá ekki geta sæst nema þeir hittust. Arnbjörn kvað hins vegar kost vera á að finna Snorra ef honum væri heitið griðum. Ekki getur Sturlunga um að því boði hafi verið svarað.
Urðu þeir þá varir við hvar Snorri var og gengu inn í kjallarann fimm menn Gissurar: Markús Marðarson frá Núpi, Símon knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðinason og Þórarinn Ásgrímsson. Flestir þessara manna voru af goðorðasvæði Gissurar og fylginautar hans af Suðurlandi; Markús var Gnúpverji og hafði komið við sögu tuttugu árum fyrr sem fylgdarmaður Björns bróður Gissurar, Símon knútur var frá Ölfusvatni og hafði verið þjónustumaður Gissurar (og Jóns murts) í Noregi 1231. Þessa menn báða hafði Gissur notað til að drepa menn í Örlygsstaðabardaga og Símon hafði verið fylgdarmaður hans frá blautu barnsbeini, hinir höfðu verið skemur í þjónustu hans og minna vitað um þá, en Þorsteinn var kjósverskur maður.
Símon knútur bað Árna beisk að höggva Snorra.
„Eigi skal höggva,“ sagði Snorri.
„Högg þú,“ sagði Símon.
„Eigi skal höggva,“ sagði Snorri.
Árni beiskur veitti honum eftir það banasár og þeir Þorsteinn Guðinason unnu saman á skáldinu. Þar lá hann allur – í kjallaranum undir loftinu í Reykholti, margsærður og lífvana, Snorri Sturluson.“
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.