Snorri Sturluson

Snorri Sturluson — stutt æviágrip
eftir Óskar Guðmundsson

Snorri Sturluson (1179–1241) goðorðsmaður í Reykholti, sagnaritari og stjórnmálamaður, er einna nafnkunnastur Íslendinga fyrr og síðar.

Rithöfundurinn og skáldið Snorri hélt til haga norrænni menningararfleifð í verkum sínum en það er ekki síður freistandi að líta á Snorra sem heimsborgara, mann sem nærst hafi af fjölþjóðlegri kaþólskri heimsmenningu allt frá bernsku — og verið beint og óbeint þátttakakandi í menningarlífi og stjórnmálum Evrópu.

Stjórnmálamaðurinn Snorri setti sterkan svip á samfélag sitt á þrettándu öld. Honum eru eignuð mörg af glæsilegustu bókmenntaverkum miðalda á Íslandi: Snorra–Edda, Heimskringla — saga Noregs konunga og Egils saga. Snorri átti líka dramatíska ævi, og bæðí hann og verk hans hafa orðið listamönnum óþrjótandi uppspretta nýrrar sköpunar. Saga Snorra Sturlusonar er til umfjöllunar á sérstakri sýningu á vegum Snorrastofu í Reykholti.

Saga Snorra — sýning


Uppruni og æska

Snorri Sturluson fæddist á bæ landnámskonunnar Auðar djúpúðgu, Hvammi í Dölum, árið 1179. Faðir hann var harðdrægur smáhöfðingi, Hvamm–Sturla og gengu af honum miklar sögur. Móðir hans, mun yngri bónda sínum, var Guðný Böðvarsdóttir af göfugum ættum höfðingja í Borgarfirði. Frændmenn hennar voru einmitt flæktir í miklar deilur um 1180 — Deildartungumál, sem leiddu til þess að Snorri Sturluson var tekinn til fósturs í Odda á Rangárvöllum frá því hann var á þriðja ári. Fósturfaðir hans Jón Loftsson var helsti höfðingi landsins um langt árabil. Hann var af móðerni kominn af norsku konungsfjölskyldunni en afi hans í föðurætt var Sæmundur fróði Sigfússon, sem nam fræði sín suður í Evrópu og er talinn hafa ritað ágrip af ævum Noregskonunga á latínu. Í Odda var á tólftu öld haldinn skóli af Sæmundi og niðjum hans — og í þann skóla er Snorri talinn hafa sótt klassíska menntun sem og lagt stund á þjóðleg fræði, ættvísi og lögspeki.


Snorri sækir fram um Vesturland og víðar…

Fyrir tilstyrk Oddaverja komst Snorri þegar á ungaaldri til áhrifa og valda á Suðurlandi sem og á Vesturlandi. Sæmundur Jónsson leiðtogi Oddaverja og Þórður eldri bróðir Snorra leituðu honum kvonfangs hjá Bersa Vermundarsyni presti og höfðingja á Borg á Mýrum og fékk hann Herdísar einkadóttur hans og Hróðnýjar Þórðardóttur, sem reyndar var frilla Þórðar Snorrabróður. Ætlunin var að Snorri hæfi búskap á óðalinu — Hvammi í Dölum en það fékkst ekki, ef til vill vegna andstöðu Sighvats annars bróður Snorra. Ungu hjónin bjuggu því fyrsta búskaparár sitt á Suðurlandi, en þegar Bersi tengdafaðir hans dó 1202 tók Snorri við búsforráðum og goðorði hans, Mýramannagoðorði.

Á næstu árum safnaði hann að sér áhrifum og völdum á Vesturlandi, fékk hálft goðorð Lundarmanna, goðorð Stafhyltinga og Gilsbekkinga þannig að hann varð einhver áhrifamesti höfðingi landsins á næstu misserum. Sum þessara goðorða fékk hann fyrir tilstuðlan vinkvenna sinna, mæðgnanna Snælaugar Högnadóttur og Guðrúnar Hreinsdóttur. Guðrún var um árabil frilla Snorra og eignaðist með honum nokkur börn, en aðeins eitt þeirra komst á legg. Með Herdísi konu sinni eignaðist Snorri tvö börn sem upp komust, Hallberu og Jón sem kallaður var murtur.

Árið 1206 skilur Herdís Bessadóttir við Snorra og hann flytur upp í Reykholt sem lá afar vel við samgöngum. Reykholt var á þekktum krossgötum milli landshluta og lá vel miðsvæðis herfræðilega. Þaðan spann Snorri Sturluson vef valda og áhrifa um land allt — og út í heim. Fyrstu árin hefur Guðrún Hreinsdóttir frilla hans vísast búið með honum, og dóttir þeirra Ingibjörg var lengstum til heimilis í Reykholti. En Guðrún Hreinsdóttir hverfur samt fljótt úr sögu, líklegast látist á ungum aldri. Með öðrum konum eignaðist Snorri börn: Órækju með Þuríði Hallsdóttur og Þórdísi með ónefndri konu.


Snorri vinur kirkjunnar

Snorri átti afar vinsamlegt samband við kirkjuna og hafði forræði á stórum kirkjumiðstöðvum eins og í Reykholti og Stafholti. Upp úr aldamótum var hann í nánu vinfengi við biskupanna, Pál Jónsson í Skálholti og Guðmund Arason á Hólum. Kirkjumiðstöðin í Reykholti var að ýmsu leyti eins og klaustur — eða stórfyrirtæki á þess tíma mælikvarða. Frá kirkjumiðstöðinni í Reykholti var kirkjum í nágrenninu þjónað og henni fylgdu nokkrir lærðir menn. Með slíku lærdómssetri efldust möguleikar Snorra til ritstarfa og útbreiðslu bókmenningar.


Lögsögumaður í utanlandsferðum

Hann var kjörinn lögsögumaður á alþingi 1215 og gegndi þeim starfa þar til hann hélt í sína fyrri utanlandsreisu 1218. Þar dvald hann meðal höfðingja, fyrst með Hákoni konungi og Skúla jarli í Túnsbergi. Veturinn 1219 fór hann til Gautlands að heimsækja Áskel lögmann og Kristínu Nikulásdóttur aðalskonu. Þá fór hann aftur til Noregs, norður til Björgvinjar og Niðaróss, aftur á vit hirðarinnar. Honum tókst að koma í veg fyrir fyrirhugaðan hernað Norðmanna á hendur Íslendingum og var sæmdur æðstu virðingu hirðar — fyrst skutilsveinn og síðar lendur maður konungs. Þar með var Snorri orðinn einn af valdamestu mönnum norsku hirðarinnar. Um það hefur verið deilt hvort hann hafi lofað að koma landinu formlega undir Noregskonung í þessari ferð, en staðreyndin er sú að Noregskonungar höfðu allt frá landnámi seilst til áhrifa í landnámi norrænna manna og ráðið miklu í byggðum þeirra við Norður–Atlantshaf.

Þegar Snorri Sturluson kom heim sumarið 1220 urðu fljótlega miklar viðsjár með honum og sunnlenskum höfðingjum af ætt Haukdæla. Samtímis var Sighvatur bróðir hans og synir Sighvats í harðvítugri andstöðu við Snorra. Hann freistaði þess að semja allsherjarfrið við Þorvald Gissurarson Haukdælaforingja — og ánæstu misserum fékk Gissur Þorvaldsson Ingibjargar Snorradóttur, afráðið var að Þorvaldur og Snorris stofnuðu klaustur í Viðey, og sjálfur fékk Snorri ekkju Bjarnar Þorvaldssonar, Hallveigar Ormsdóttur og hófu þau þegar búskap sinn saman og eignuðust börn, þótt ekkert þeirra lifði til fullorðinsára. Eftir að samlag þeirra Hallveigar kom til sögu virðast frekari barneignir hans utan hjónabands vera úr sögunni.


Sagnameistarinn Snorri

Næstu þrjú árin 1220–1223, hafði Snorri Stafholt að höfuðbýli sínu, vísast meðan mikil uppbygging húsa og híbýla stóð yfir í Reykholti. Þar var reist mikið virki umhverfis hús og staðurinn efldur að mun sem kirkjumiðstöð og lærdómsmiðstöð. Á staðnum var samfélag lærðra manna, presta sem iðkuðu stunduðu tíðir og guðsþjónustu daglega og þjónuðu kirkjum og bænahúsum bænda í nágrenninu. Þá voru ótaldir þeir skrifarar og lærisveinar sem hljóta að hafa gengið til skrifarastarfa með og fyrir Snorra skáldbónda. „Á bók þessa lét ég rita…“, segir Snorri í einum formála Heimskringlu og gefur þannig til kynna að hann hafi lesið fyrir — ritstýrt — fremur en ritað sjálfur. Sama gefur hann til kynna tilaðmynda í Ólafs sögu Tryggvasonar þar sem alltíeinu segir í texta: „Það vil eg nú næst rita láta að segja frá íslenskum mönnum.“

Margir telja að bókmenntaverk eignuð Snorra Sturlusyni eigi það sameiginlegt að einkennast af fræðilegri vandvirkni — miðað við ritunartíma — sem og stíllegri kátínu og yfirburða þekkingu á menningararfinum, kvæðum og sögum úr munnlegri geymd og leikni við úrvinnslu heimilda. Það á við um Snorra Eddu; Skáldskaparmál, Gylfaginningu og Háttatal, Noregs konunga sögur (Heimskringlu) og Egils sögu. Sögusviðið er hvarvetna eiginlega allur heimurinn.

Snorri átti við margan vanda að etja, öll börn hans gerðu einhvers konar uppreisn gegn honum, sum þeirra féllu frá á ungum aldri önnur voru honum öndverð löngum stundum. Sama á við um Sighvat bróður hans og syni hans, sem fóru hvað eftir annað gegn honum með herflokkum og ofbeldi. Snorri hafði komist til áhrifa með aðstoð Oddaverja og var eiginlega í flokki þeirra framan af æfi. En þegar á leið æfina hurfu þeir frá stuðningi við hann.

Þótt Snorri þætti vera lævís stjórnmálamaður og leikinn rithöfundur fannst mönnum hann vera afleitur hermaður og var jafnvel sakaður um heigulshátt og hugleysi þegar átök stóðu fyrir dyrum. Hann var sumsé maður friðar og undanhalds á tímum vopnaðrar aldar — riddaratíma. Engu að síður var hann hríðum valdamesti maður landsins, af því hann nýtti alla aðra hæfileika þeim mun betur í hagnaðarskyni.


Ísland lén Snorra

Eftir harðvítug stjórnmálaátök á fjórða áratug þrettándu aldar fór Snorri aftur til Noregs árið 1237 . En þá var gífurleg spenna milli Skúla hertoga Bárðarsonar sem löngum var valdamesti maður Noregs — og Hákonar konungs Hákonarsonar. Snorri hafði allan tímann verið í vinfengi við Skúla og í þessari ferð treystist vinátta þeirra enn betur. Það er jafnvel ólíklegt að Snorri hafi hitt konung í þessari ferð, hann dvaldi í Niðarósi hjá Skúla.

Áður en Snorri hvarf til Íslands aftur vígði Skúli hann leynilega sem jarl, væntanlega með það í huga að sjálfur yrði hann konungur í Noregi en hans maður, Snorri Sturluson, jarl á Íslandi. Hákon konungur bannaði Snorra og félögum hans Íslandsför, en Snorri á að hafa sagt: Út vil ek! Og fór til Íslands.

Næstu mánuði var Skúli viðtekinn sem konungur á nokkrum þingum víðsvegar um Noreg. Kröfur hans til konungdóms kunna vel að hafa byggst á efnivið úr smiðju Snorra Sturlusonar, sagnfræðileg og ættfræðileg rök voru leidd að réttmæti kröfunnar um konungstignina. Þegar leið á veturinn 1240 höfðu Hákonarmenn betur — og svo fór að Skúli var veginn 24. maí 1240.


Fallið — samsærið — morðið

Margt var líkt með þeim vinum, Snorra og Skúla, og örlög þeirra ofin saman. Sumarið 1241 voru blikur á lofti í lífi Snorra, hann missti Hallveigu konu sína í júlímánuði og varð honum mikið um fráfall hennar. Hákon konungur sendi bréf til Íslands með beiðni um að Snorri kæmi til Noregs og stæði konungi reikningsskil gerða sinna. Gissur Þorvaldsson og fleiri fyrrverandi tengdasynir fóru með flokkum að Snorra haustið 1241, flestir foringjar flokkanna voru afkomendur fóstra hans Jóns Loftssonar. Það má því segja að þeir sem skópu stjórnmálamanninn Snorra Sturluson og studdu hann til valda, Oddaverjar, hafi haft forystu um að binda endi á æfi hans. Gissur og kumpánar hans komu að Reykholti aðfararnótt 23. september og vógu skáldið. Snorri á að hafa minnt vegendur sína á sjötta boðorðið Þú skalt eigi morð fremja: Eigi skal höggva!

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.