Saga stofnunarinnar

Stiklað á stóru í sögu Snorrastofu

1931

Hugmyndin um stofnun Snorrasafns kynnt i ræðu Kristins Stefánssonar skólastjóra Héraðsskólans í Reykholti við vígslu skólans 7. nóvember.

1932–1935

Fjölmargar bækur berast Snorrasafni, flestar frá Einari Hilsen, Bandaríkjamanni af norskum ættum. Meðal bókanna voru ýmsar útgáfur af verkum Snorra Sturlusonar.

1936

Að Tryggva Þórhallssyni fyrrverandi forsætisráðherra látnum stuðlar Jónas frá Hriflu að því, að mikilsvert bókasafn hans er keypt og ráðstafað í Reykholti. Hluti safnsins var áður í eigu Þórhalls Bjarnasonar biskups, föður Tryggva.

1963

Í tengslum við baráttuna um að fá handritin heim, kynna Gylfi Þ. Gíslason, menntamálaráðherra, og sr. Einar Guðnason, sóknar- prestur í Reykholti, þá hugmynd, að komið verði upp íbúð í Reykholti fyrir gestkomandi fræðimenn.

1984

Reykholtssöfnuður ákveður að byggja nýja kirkju í Reykholti. Jafnframt er ákveðið að stefna að byggingu Snorrastofu. Garðari Halldórssyni, húsameistara ríkisins, er falið að teikna húsin.

1984–88

Reykholtssókn vinnur að undirbúningi byggingar nýrrar kirkju og Snorrastofu í samvinnu við menntamála- og kirkjumálaráðuneytið.

Hvítasunnudagur 1988

Biskup Íslands, herra Pétur Sigurgeirsson, tekur fyrstu pálstunguna að byggingu Snorrastofu og nýrrar kirkju. Byggingarframkvæmdir hefjast.

6. sept. 1988

Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, leggur hornstein að kirkjunni og Snorrastofu að viðstöddum herra Ólafi Hákonarsyni, konungi Norðmanna. Við það tækifæri afhendir hann þjóðargjöf Norðmanna til Snorrastofu.

23. sept. 1995

Draumurinn um sérstaka stofnun tileinkaða Snorra verður að veruleika þegar Snorrastofu er formlega komið á fót með undirritun stofnskrár.

11. júní 1996

Stofnunin hefur störf með undirritun starfssamnings ríkis og aðila í héraði um rekstur hennar. Ferðaþjónustunni Heimskringlu er komið á fót í tengiálmu kirkjunnar og Snorrastofu.

Sept. 1998

Skrifstofa Snorrastofu er opnuð í kjölfar ráðningar forstöðumanns. Til bráðabirgða er stofnuninni komið fyrir í norðurenda húss gamla Héraðsskólans.

24. febrúar 1999

Snorrastofa efld sem rannsóknarstofnun. Herra Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, kynnir skýrslu nefndar, sem gerði það að tillögu sinni að komið yrði á fót rannsóknarstarfsemi í íslenskum og evrópskum miðaldafræðum í Reykholti.

April 1999

Fyrir milligöngu Máls og menningar fær Snorrastofa bókasafn dr. Jakobs Benediktssonar að gjöf, samtals 6-7000 bindi.

11. janúar 2000

Undirritað samkomulag við menntamálaráðuneytið um breytingu á starfssamningi Snorrastofu. Tekið er mið af niðurstöðum nefndar ráðuneytisins um miðaldafræði í Reykholti.

29. júlí 2000

Húsnæði Snorrastofu opnað við hátíðlega athöfn að viðstöddu miklu fjölmenni. Meðal gesta voru Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og norsku konungshjónin, Haraldur V. og Sonja.

4. febrúar 2001

Dr. Jónas Kristjánsson, fyrrv. forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, dvelur fyrstur allra í fræðimannsíbúð Snorrastofu.


Miðaldafræði í Reykholti

Hugmyndin um miðaldafræði í Reykholti

Á ráðstefnu í Þjóðminjasafni Íslands 20. september 1996 hreyfði Björn Bjarnason menntamálaráðherra þeirri hugmynd að gera Reykholt í Borgarfirði að evrópsku menningarsetri þar sem stunduð yrðu miðaldafræði og rannsóknir á fornleifum. Með nýjustu upplýsingatækni myndi unnt að treysta alþjóðleg tengsl þeirra sem þar ynnu að fræðum sínum. Rétt er að hafa í huga að þegar þessi orð féllu var enn ekki búið að taka ákvörðun um framtíð gamla skólahússins, en ljóst var orðið að skólahaldi á staðnum yrði hætt.

Í apríl 1998 ritaði Úlfar Bragason forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals og einn stjórnarmanna Snorrastofu grein í Morgunblaðið þar sem hann tók undir hugmynd ráðherrans og varpaði fram ýmsum hugmyndum um leiðir að þessu marki. Taldi hann m.a. að Snorrastofa gæti beitt sér fyrir evrópskum samstarfsverkefnum á sviði miðaldafræða í samvinnu við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið. Um svipað leyti ræddu fulltrúar stjórnar Snorrastofu við menntamálaráðherra um framgang málsins og kynntu honum hugmyndir sínar um hvernig skipuleggja mætti rannsóknarstarfsemi á sviði miðaldafræða í Reykholti. Lögðu þeir til að skipuð yrði nefnd til að vinna að málinu. Var það gert í júlí, svo sem fram hefur komið.
(Úr skýrslu menntamálaráðuneytisins Miðaldafræði í Reykholti)

 

Framvindan frá því haustið 1998

Starfsemi Snorrastofu fór á fulla ferð haustið 1998, þegar Bergur Þorgeirsson, M.A. í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands, var ráðinn til stofnunarinnar sem forstöðumaður. Síðan þá hefur verið unnið að fjölda verkefna. Bráðabirgðaskrifstofa var opnuð  í norðurenda gamla Héraðsskólahússins í Reykholt þann 14. september, auk þess sem þar var komið fyrir litlu bókasafni og málstofu. Unnið var til að byrja með að stefnumörkun og ýtt úr vör fjölmörgum verkefnum, sem falist hafa í reglubundnu fyrirlestrhaldi fræðimanna, málþingum, málstofu og sýningarhaldi.

Frá nóvemberlokum 1998 hefur Snorrastofa, í samvinnu við ýmsa aðila, staðið að framkvæmd nokkurra málþinga. Fluttir hafa verið stakir fræðilegir fyrirlestrar, starfrækt málstofa, settar upp sýningar og tekið þátt í rannsóknarverkefnum. Fyrsta dagskráin var haldin þann 26. nóvember 1998, en þá sótti Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og kennari við Háskóla Íslands, Reykholt heim og hélt erindið Bókmenntir í öskustó. Hugleiðingar um kolbíta fornsagnanna og bókelska almúgamenn. Fyrirlestrarhald sem þetta er fastur liður í dagskrá Snorrastofu og ber það yfirskriftina Fyrirlestrar í héraði.

Aðsókn að samkomum Snorrastofu hefur verið mjög góð. Þá hafa fjölmargir hópar, sem beint eða óbeint tengjast rannsóknarsviðum stofnunarinnar, sótt hana heim og fengið leiðsögn um svæðið og kynningu á stofnuninni. Sumir þessara hópa hafa nýtt sér Snorrastofu og Hótel Reykholt fyrir fundi og námskeið.

Starf nefndarinnar Miðaldafræði í Reykholti

Hugmyndin um Snorrastofu sem rannsóknarstofnun hefur m.a. verið mótuð af nefnd, sem Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, skipaði haustið 1998. Verksvið hennar var að ræða framtíð miðaldafræða í Reykholti og koma með tillögur um hvernig iðkun þessara fræða geti rúmast innan veggja stofnunarinnar.

Nefndina skipuðu Guðmundur Magnússon, sem tilnefndur var af menntamálaráðherra og jafnframt var formaður nefndarinnar, Helga Kress, tilnefnd af Háskóla Íslands, og Bjarni Guðmundsson, formaður stjórnar Snorrastofu. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í byrjun febrúar 1999 og voru þær síðan kynntar á fundi sem Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, og Guðmundur Magnússon héldu í Reykholti þann 24. febrúar sama ár. Snorrastofa hefur starfað í anda þeirra tillagna, sem nefndin mótaði.


Góðir gestir

Jónas Kristjánsson fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar á mikinn þátt í því að Snorrastofa varð að veruleika. Hér er hann við skriftir í gestaíbúð Snorrastofu í febrúar 2011 við bók sína, Söguþjóðin, sem kom út árið 2012.

Francois-Xavier Dillmann er einn góðra gesta, sem oft hefur heimsótt Snorrastofu og iðkað fræði sín. Árið 2015 kom hann og var þá að vinna að þýðingu sinni á Ólafs sögu helga.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.