Um Snorrastofu

Um Snorrastofu

Menningar- og miðaldasetrinu Snorrastofu í Reykholti var komið á fót árið 1995. Vegna merkrar sögu staðarins hefur stofnunin stundað og tekið þátt í fjölda rannsókna tengdum staðnum og miðaldafræðum almennt. Sú hugmynd, að gera Snorrastofu að evrópsku menningarsetri, hefur verið grunnstef starfseminnar, og allt frá árinu 1998 hefur stofnunin stuðlað að iðkun miðaldafræða í samvinnu við innlendar sem erlendar stofnanir. Afraksturinn hefur birst í 24 útgefnum bókum Snorrastofu og samstarfsaðila stofnunarinnar ásamt fjölda greina í fræðiritum.

Auk rannsókna annast stofnunin miðlun þekkingar á menningu miðalda með sýningum, starfrækslu gestamóttöku, fyrirlestrum og námskeiðum og hafa Reykholt, Snorri og önnur fræði tengd héraðinu hafa forgang.

Þá rekur Snorrastofa bæði almennings- og rannsóknarbókasafn, ásamt því að bjóða upp á svokölluð Prjóna-bóka-kaffi. Þar gefst fólki kostur á að njóta skapandi samveru í andrúmslofti bókhlöðu stofnunarinnar. Þess má geta að árið 2019, þ.e. síðasta árið fyrir COVID-19, bauð Snorrastofa upp á samtals fjörutíu og tvo viðburði opna almenningi og eru þá tónleikar og fleira í Reykholtskirkju ekki taldir með.

Fræðastarfinu hefur því verið sinnt með þátttöku fólks úr öllum heimshornum og hafa alþjóðlegu samskiptin vakið eftirtekt. Sex til sjöhundruð innlendir og erlendir fræðimenn hafa komið í Reykholt á rúmum 20 árum, ýmist til að taka þátt í rannsóknarverkefnum, sitja ráðstefnur eða dveljast á staðnum við fræðaiðkun, þýðingar og aðrar skriftir.

Snorrastofa mun halda áfram að stuðla að samvinnu íslenskra og erlendra fræðimanna, enda í kjörstöðu vegna staðsetningar á þjóðmenningarstað og allra þeirra verkefna, sem stofnunin hefur sinnt á umliðnum árum.

Reykholt er meðal mikilvægustu sögustaða Íslands og er þekktast fyrir búsetu Snorra Sturlusonar þar á fyrri hluta 13. aldar. Saga staðarins tengist þó ekki einvörðungu þessum merka rithöfundi og höfðingja, enda orðinn stórbýli og kirkjumiðstöð löngu fyrir hans daga. Þá stafar einnig ljóma af ferli svonefndra Reykhyltinga í kjölfar umbrota siðaskiptanna, þ.e. merkispresta er tilheyrðu sömu ættinni á 185 ára tímabili, sem hófst með því að séra Jóni Einarssyni var falinn staðurinn árið 1569. Kunnastur þeirra var séra Finnur Jónsson, síðar biskup í Skálholti. Finnur var sonur séra Jóns Halldórssonar í Hítardal, merks 17. aldar fræðamanns, og faðir séra Hannesar Finnssonar, síðasta Skálholtsbiskups. Reykhyltingarnir voru þekktir fyrir umfangsmikla og mikilvæga skjalasöfnun og var skjalasafn kirkjustólsins í Reykholti keypt til Landsskjalasafnsins, síðar Þjóðskjalasafns Íslands, við stofnun þess.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.