Stjórnir, skipurit og stofnskrá

Stjórnir, skipurit og stofnskrá

Stjórn Snorrastofu 2022–2026

Þorgeir Ólafsson formaður, fulltrúi  Reykholtssóknar

Kristrún Heimisdóttir, fulltrúi Borgarbyggðar

Brynja Þorbjörnsdóttir, sameiginlegur fulltrúi Skorradalshrepps og Hvalfjarðarsveitar

Halldór Guðmundsson, fulltrúi mennta- og menningarmála-ráðuneytis

Haukur Þorgeirsson, fulltrúi mennta- og menningarmála-ráðuneytis, tilnefndur af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Fyrri stjórnir…


Skipurit

Skipurit


Skipulagsskrá

1. gr.

Heimili og varnarþing

Snorrastofa í Reykholti er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og starfar á grundvelli laga, nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Heimili og varnarþing er í Reykholti í Borgarfirði. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eigum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

2. gr.

Stofnendur og stofnfé

Stofnendur Snorrastofu í Reykholti voru við stofnun þann 28.09.1995: Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu, héraðsnefnd Mýrasýslu, Reykholtsdalshreppur, Reykholtskirkja og menntamálaráðuneytið.

Stofnendur lögðu fram 500 þúsund króna stofnframlag til stofnunarinnar sem skal vera óskerðanlegur höfuðstóll og ávaxta skal með tryggilegum hætti. Ríkissjóður leggur fram 40% stofnframlags og aðrir 15% hver.

3. gr.

Markmið

Snorrastofa í Reykholti er safn um Snorra Sturluson og sögu Reykholts. Stofnunin stuðlar að rannsóknum og veitir fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni og Reykholti. Stofnuninni er einnig ætlað að kynna sögu Borgarfjarðarhéraðs sérstaklega. Starfsemi Snorrastofu í Reykholti fer fram í samnefndu húsi í Reykholti í Borgarfirði samkvæmt sérstöku samkomulagi.

Í Snorrastofu í Reykholti er starfrækt bókhlaða. Þar skal sérstaklega safna verkum tengdum Snorra Sturlusyni og á sviði miðaldarfræða. Þar er einnig veitt almenn bókasafnsþjónusta samkvæmt bókasafnslögum, nr. 150/2012, enda sé um það samið við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Í Snorrastofu í Reykholti er starfrækt dvalar- og vinnuaðstaða fyrir fræði- og listamenn. Þá er á vegum Snorrastofu starfrækt í Reykholti upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn og staðið að sýningum og fræðslu um Snorra Sturluson og sögu staðarins og íslenska menningu.

Heimilt er að fela Snorrastofu í Reykholti að hafa umsjón með fornminjum í Reykholti með yfirumsjón Minjastofnunar Íslands samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, og að fengnu samþykki Þjóðminjasafns Íslands.

4. gr.

Stjórn

Stjórn Snorrastofu í Reykholti er skipuð fimm mönnum til fjögurra ára í senn og skal skipunartími stjórnarinnar vera sá sami og kjörtímabil sveitarstjórna. Enginn stjórnarmanna skal hafa framfæri sitt af starfi við stofnunina.

Formaður stjórnar skal skipaður af sóknarnefnd Reykholtskirkju. Borgarbyggð skipar tvo fulltrúa í stjórnina, skal annar þeirra tilnefndur sameiginlega af Skorradalshreppi og Hvalfjarðarsveit. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar tvo fulltrúa, skal annar þeirra tilnefndur af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Varafulltrúar skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin kýs varaformann og ritara úr sínum hópi.

Starfsár stjórnarinnar hefst 1. júlí.

5. gr.

Starfssvið stjórnarinnar

Stjórn Snorrastofu í Reykholti ber að vinna að markmiðum stofnunarinnar. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun og setur sér og stofnuninni starfsreglur.

Stjórnin fundar eins oft og þörf krefur að frumkvæði formanns stjórnar. Halda skal stjórnarfund krefjist tveir stjórnarmanna þess. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef málefni sem fyrir liggur til ákvörðunar varðar hann persónulega.

6. gr.

Forstöðumaður

Stjórn Snorrastofu í Reykholti ræður forstöðumann, sem annast daglegan rekstur og mannahald og setur stjórnin honum erindisbréf. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Forstöðumaðurinn undirbýr starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár, sem skal lögð fyrir stjórnina fyrir 1. apríl ár hvert. Forstöðumaðurinn vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil.

7. gr.

Tekjur

Tekjur Snorrastofu í Reykholti auk vaxta af stofnframlagi eru frjáls framlög frá ríki og sveitarfélögum, tekjur af þjónustu auk frjálsra framlaga frá einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum og annars aflafjár.

Tekjum og eignum Snorrastofu í Reykholti má einvörðungu verja í þeim tilgangi sem samrýmist markmiðum stofnunarinnar.

8. gr.

Samstarf við aðra

Til þess að stofnunin geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd stofnunarinnar að eiga samstarf við aðra aðila þ.m.t. stofnaðila og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma. Stjórn skal staðfesta alla slíka samninga.

9. gr.

Reikningshald

Reikningsár Snorrastofu í Reykholti er almanaksárið og skal forstöðumaður innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs leggja ársreikning ásamt skýrslu um starfsemina fyrir stjórn stofnunarinnar. Forstöðumaður skal fyrir 1. nóvember ár hvert leggja rekstraráætlun næsta reikningsárs fyrir stjórn stofnunarinnar til afgreiðslu.

Reikningar Snorrastofu í Reykholti skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem skipaður er af stjórn til a.m.k. tveggja ára í senn. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári. Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

10. gr.

Breyting samþykkta og slit

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari. Skipulagsskránni verður aðeins breytt með samþykki allra stjórnarmanna og skulu þær hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki. Breytingar á skipulagsskránni verða aðeins samþykktar á löglega boðuðum fundi stjórnar enda hafi tillaga um slíkt verið kynnt í fundarboði.

Stofnuninni verður slitið með sameiginlegri ákvörðun stjórnar. Verði starfsemi Snorrastofu í Reykholti hætt og stofnunin lögð niður skulu eignir hennar renna til eflingar rannsóknum á íslenskum fræðum.

Með gildistöku þessarar nýju skipulagsskrár fellur úr gildi eldri skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Snorrastofu í Reykholti, nr. 535/1995.

Breytingar á skipulagsskrá þessari samþykktar á fundi stjórnar Snorrastofu í Reykholti þann 16. mars 2013.

Undirskriftir stjórnar Snorrastofu
Björn Bjarnason
Úlfar Bragason
Jónína Erna Arnardóttir
Jóhannes Stefánsson
Davíð Pétursson

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.