Áhugaverðar niðurstöður Vífils Karlssonar 7. febrúar 2020

Áhugaverðar niðurstöður Vífils Karlssonar

Vífill Karlsson hagfræðingur, dósent við Háskólann á Akureyri og ráðgjafi SSV, hélt fyrirlestur þann 4. febrúar síðastliðinn í Snorrastofu þar sem hann kynnti niðurstöður rannsókna í dreifðum byggðum landsins 2016 og 2017 meðal annars um áhrif mennta- og menningarstofnana í byggðarlaginu á velferð íbúa þar, viðhorf til búferlaflutninga og menntunarstig.

Áhugavert var að rýna í niðurstöður könnunarinnar undir leiðsögn Vífils og þar kom margt áhugavert í ljós um samfélagið á landsbyggðinni, samsetningu þess og viðhorf ýmis konar.

Markverð tíðindi fyrir byggðarlag einsog Vesturland, sem státað getur bæði af menningarstofnunum og menntasetrum, eru þau að menntunarstig er hærra en þar sem slíkar stofnanir eru ekki og viðhorf íbúa til gæða samfélags og náttúru jákvæðara.  Aukin menntun virðist þó ekki stuðla að rótfestu fólks í byggðalaginu, en fjöldi þeirra helst stöðugur, sem bendir til þess að aðrir komi í staðinn. Svar við spurningu kvöldsins um mátt tilvistar og starfs stofnana á borð við Snorrastofu til að fleyta byggðarlaginu inní fjórðu iðnbyltingu gervigreindar og snjallvæðingar reyndist því jákvætt.

Umræður og vangaveltur eftir fyrirlesturinn voru líflegar og frjóar enda gaf efni fyrirlestursins tilefni til þess. Sjá nánar um efni fyrirlestursins...

Myndir Guðl. Ósk.

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.