Árið 1918 í Borgarfirði - Opnun sýningar í hátíðarsal Snorrastofu 20. nóvember 2018

Árið 1918 í Borgarfirði - Opnun sýningar í hátíðarsal Snorrastofu

Þann 3. nóvember 2018, á afmælisári fullveldis Íslendinga, var opnuð sýning í hátíðarsal Snorrastofu í héraðsskólanum, Árið 1918 í Borgarfirði.

Á sýningunni raðast saman munir og minningar; ljósmyndir, sendibréf og önnur slík minningarbrot sem skapa stemningu – tilfinningu fyrir tíðaranda ársins. Brugðið er upp myndum af bæjum og búendum, mennt og menningu, lífsbaráttu og tómstundum Borgfirðinga. Fréttir ársins af borgfirskum málefnum eru einnig fengnar úr prentuðum blöðum – og mjög byggt á handrituðum blöðum sem Þorsteinn Jakobsson (1884–1967) skráði.

Óskar Guðmundsson rithöfundur, höfundur sýningartextans,  fylgdi sögusýningunni úr hlaði með fyrirlestri: 1918- Borgfirðingurinn í heiminum og heimurinn í honum.

Páll Guðmundsson á Húsafelli flutti upphafsstef samkomunnar, Ísland farsældar frón og frumsamda eigin tónlist við ljóð Þorsteins Jakobssonar. Hljóðfærið var rabbarbaraflauta hans, sem smíðuð var úr um 100 ára gömlum stönglum.

Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri opnaði sýninguna og Bergur Þorgeirsson forstöðumaður flutti ávarp og dagskránni stjórnaði Jónína Eiríksdóttir.

Sjá nánar um sýninguna...

Sjá einnig umfjöllun um sýninguna og fyrirlestur Óskars í blaðinu Vesturland...

Sýningin verður opin almenningi, helgina 1. -2. desember næstkomandi kl. 10-17 og utan þess tíma er hægt að panta aðgang að sýningunni hjá gestastofu Snorrastofu.

Myndir frá samkomunni (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson og Bergur Þorgeirsson)

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.