Blómstrandi menning á vordögum 3. apríl 2019

Blómstrandi menning á vordögum

Fyrst vika aprílmánaðar færir að þessu sinni blómstrandi menningu og ánægjulegt mannlíf á Reykholtsstað.

Mánudagskvöldið 1. apríl lauk dr. Ármann Jakobsson námskeiði vetrarins um Tolkien og íslenskar miðaldabókmenntir, sem hefur verið vel sótt og fræðandi einu sinni í mánuði s.l. vetur. Næsta dag hélt Steinunn J. Kristjánsdóttir fornleifafræðingur fyrirlestur sinn um klausturhald, konur og pólitík frá kristnitöku og fram að siðaskiptum. Fyrirlesturinn var hinn hressilegasti undirtektir gesta með hressilegum blæ. Miklar umræður spunnust um efnið að loknu kaffihléi.

Næsta fimmtudag verður Prjóna-bóka-kaffið á sínum stað í bókhlöðunni og þann 24. maí má minna á kvöld Kvæðamannafélagsins Snorra í Reykholti á sama stað.

Reynir Hauksson Flamenco-gítarleikari heldur tónleika í Reykholtskirkju mánudaginn 8. apríl kl. 20:30 og þann 30. apríl verður síðasti fyrirlestur vetrarins í röðinni Fyrirlestrar í héraði, en hann flytur Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um tónlist: „Var hún á leiðinni?“ Svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistar – með fáeinum tóndæmum.

Barnamenningarhátíð

Miðvikudaginn 8. maí blæs Snorrastofa til barnamenningarhátíðar í Reykholti í annað sinn með miðstigsnemendum skóla úr héraðinu. Fyrsta hátíðin af þessu tagi var haldin vorið 2016.  Dagurinn hefst með því að börnin leggja fram eigin sköpun sem orðið hefur til í námi á miðstigi um miðaldir Snorra Sturlusonar og eftir það verður þeim boðið að njóta miðaldastemningar, sem reidd verður fram af öðrum handverks- og listamönnum. Má þar nefna leiksýninguna Gísla Súrsson frá Komedíuleikhúsinu, ritstofu frá Stofnun Árna Magnússonar sem sett verður upp á staðnum, tónlist hjá tónlistarhópnum Umbru, brauðgerð hjá Bryndísi Geirsdóttur og Hinu blómlega búi í Árdal og farið verður í ratleik um staðinn með aðstoð hljóðleiðsagnar-appsins Snorra frá Locatify.

Þá má einnig geta á vordögum fjölskyldudags við Reykholtsskóga 22. júní, Líf í lundi, á vegum skógarbænda á Vesturlandi, skógræktarinnar á Vesturlandi (Skorradal) og Skógræktarfélags Borgarfjarðar.

Snorrastofa þakkar Uppbyggingarsjóði Vesturlands og sveitarfélaginu Borgarbyggð þann stuðning, sem veittur hefur verið undanfarin ár til verkefna á borð við þau, sem að ofan greinir og tekur fagnandi á móti vori komanda.

Myndir frá námskeiðslokum og fyrirlestri í fyrstu viku aprílmánaðar 2019 (Bergur Þorgeirsson og Guðlaugur Óskarsson):

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.