Börnin mæta miðöldum á vordögum 17. maí 2019

Börnin mæta miðöldum á vordögum

Snorrastofa hóf á loft kefli barnamenningar síðasta miðvikudag 8. maí þegar 170 nemendur úr grunnskólum nágrennisins mættu á höfuðból höfðingjans Snorra Sturlusonar, kynntu með líflegum tilþrifum eigin afurðir, sem til urðu í vetrarnáminu um hann og miðaldir. Að því búnu tókust þau á við ýmsa þætti þess lífs, sem lifað var á hans tíma, sem framreiddir voru af góðum gestum, handverks- og listafólki. Þetta voru miðstigsnemendur í Reykhólaskóla, Auðarskóla, Laugargerðisskóla, Grunnskóla Borgarness og Grunnskóla Borgarfjarðar ásamt kennurum sínum og leiðbeinendum. Frumkvæði og stuðningur við hátíðina kemur úr menningarhluta Uppbyggingarsjóðs Vesturlands.

Eftir sambærilega hátíð árið 2016 var ákveðið að bjóða miðstigsnemendum af Vesturlandi til hátíðar á þriggja ára fresti þannig að hver og einn komi einu sinni á námstímanum í sérstaka heimsókn í Reykholt eftir að hafa fengist við ævi og störf frægasta höfðingja og sagnaritara staðarins í námi sínu.

Dagurinn hófst með því að nemendur kynntu hver fyrir öðrum ýmis skemmtileg og frumleg verkefni úr skólastarfinu sem gáfu til kynna að mikið hefur verið starfað í vetur og börnin vel að sér um málefnin. Þar má nefna hreyfimyndir með kyrrum og leiknum myndskeiðum, myndverk af ýmsu tagi, áþreifanlega muni eins og vatn úr Hvammsá í Dölum, bækur fyrir ungt fólk í dag, sem sækja efnivið í smiðju Snorra og alls kyns samantektir, sem gefa innsýn í ævi örlög hans. Eftir hádegishressingu setti sveitarstjóri Borgarbyggðar, Gunnlaugur Júlíusson, hátíðina í Reykholtskirkju og í kjölfarið steig Elfar Logi Hannesson á stokk og sýndi einleik sinn um Gísla Súrsson. Það var magnað að sjá, hvað krakkarnir fylgdust vel með þessari framandi sögu frá miðöldum og héldu svo galvösk í hópum til ýmissa búða, sem biðu víða um staðinn með upplifun og tilraunum.

Í einni þeirra gátu nemendur tekið þátt í að mala korn, hnoða brauðdeig og fá ljúfmetið steikt yfir eldi. Það voru þau Bryndís Geirsdóttir og Guðni Páll Sæmundsson sem réðu ríkjum í brauðgerðinni með aðstoð Gíslínu Jensdóttur. Ein búðin bauð nemendum að kynnast miðaldatónlist, hlusta á fjölbreytt hljóðfæri, kveða rímur og dansa. Þar réðu ferðinni tónlistarkonurnar Kristín Lárusdóttir, Diljá Sigursveinsdóttir og Helga A. Jónsdóttir. Í ritstofu Svanhildar M. Gunnarsdóttur frá Árnastofnun fengu nemendur að draga til stafs með fjöðurstaf og jurtableki á lítinn bút af kálfskinni og í fjórða lagi beið nemenda að fara í ratleik um staðinn með appinu Snorra, í umsjá Steinunnar Gunnlaugsdóttur frá Locatify í Borgarnesi. Líklega gerði þó „kakótjaldið“ einna mesta lukku þar sem hægt var að koma við og fá sér heitt kakó og eiga næðisstund á tjaldbekk eða í faðmi náttúrunnar.

Dagurinn ljómaði í Reykholti á miðvikudaginn þar sem gleði og sköpun réðu ríkjum og börn og menning áttu gjöfula samleið. Að honum stóð gott fólk, bæði heimamenn og aðkomumenn, sem sameinuðust um að hlúa að mikilvægum þætti skólastarfsins, að enda námsferlið með raunverulegri tengingu við efni og inntak námsins. Börnin sýndu svo ekki varð um villst, að þeirra er framtíðin. Til gamans má geta þess að Landinn, með Gísla Einarsson í fararbroddi, dvaldi á staðnum eftir hádegið og fangaði andrúmsloftið í skemmtilegri samantekt, sem birtist í RÚV síðastliðinn sunnudag og finna má á landakorti Landans á vef Ríkisútvarpsins.

 Myndir frá deginum. Guðl. Óskarsson og Bergur Þorgeirsson:

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.