Brot úr tónlistarsögu krufið og flutt 3. maí 2019

Brot úr tónlistarsögu krufið og flutt

Fyrirlestrar í héraði: "Var hún á leiðinni?" Svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistar [1901-1930] - með fáeinum tóndæmum.

Síðastliðinn þriðjudag 30. apríl flutti Trausti Jónsson, veðurfræðingur og áhugamaður um tónlist, erindi hér í Snorrastofu þar sem hann greindi frá eftirgrennslan sinni eftir fyrstu dægurlögum Íslandssögunnar.  Að erindinu loknu bauð hann gestum á heyra nokkur tóndæmi og fékk þar til liðs við sig listafólk úr héraðinu. Fyrsta íslenska dægurlagið, sem varðveist hefur á prenti, var flutt í Bókhlöðunni, en síðan barst leikurinn inn í Reykholtskirkju þar sem flutt voru 13 lög úr því lagasafni, sem sömuleiðis hafa varðveist á nótum og Trausti hefur grafið upp.

Afar góð aðsókn var að kvöldinu og engum duldist sá mikli áhugi og þrautseigja, sem Trausti hefur sýnt við leitina að fyrstu dægurlögunum. Hann fjallaði af sínum alkunna léttleika um höfunda, jarðveg þeirra og viðfangsefni þessa fyrstu áratugi 20. aldarinnar svo úr varð hin besta skemmtun. Tónlistin, sem flutt var, kom nokkuð á óvart, því þar fór saman bæði fegurð hennar og þroskuð vinnubrögð höfundanna. Listafólkið, eða Leitarsveitin, eins og Trausti nefndi hópinn, er allt starfandi listafólk í Borgarfjarðarhéraði og leysti flutning þessarar áhugaverðu og merkilegu dagskrár með stakri prýði.

Leitarsveitina skipa, Bjarni Guðmundsson (söngur og gítar), Jónína Erna Arnardóttir (píanó), Olgeir Helgi Ragnarsson (tenór), Ólafur Flosason (óbó), Sigurgeir Gíslason (harmónika),  Theodóra Þorsteinsdóttir (sópran) og Zsuzsanna Budai (píanó).

Snorrastofa er þakklát fyrir þetta ríkulega framlag Trausta til íslenskrar menningarsögu og væri heiður að fá að njóta fleiri stunda í þessum dúr er fram líða stundir.

Myndir Guðl. Ósk.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.