
Fornsagnanámskeiðið hefst næsta þriðjudag 10. okt.
Landnám Grænlands, fundur Vínlands / Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða
Að venju bjóða Snorrastofa, Landnámssetur og Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi til sex kvölda fornsagnanámskeiðs á komandi vetri 2017-2018.
Námskeiðið fjallar um hinar tvær fornu sögur um norræna menn á Grænlandi, og rannsóknir á landnámi þeirra þar og á Vínlandi.
Fræðimenn með margvíslegan bakgrunn fjalla um efnið, hver frá sínum sjónarhóli.
Námskeiðið verður á fyrsta þriðjudagskvöldi hvers vetrarmánaðar kl. 20 - 22 til skiptis í Snorrastofu og Landnámssetri.
Allt námskeiðið kostar kr. 21.000, stakt kvöld kr. 4.000
Skráning fer fram á vef Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi eða í s.: 433 6929, netfang: simenntun@simenntun.is. Einnig er hægt að skrá sig á námskeiðskvöldunum.
Verið velkomin!
Yfirlit:
Fyrsta kvöld í Snorrastofu - 10. október kl. 20
Mynd fornsagnanna af Vínlandi
Leiðbeinandi Gísli Sigursson prófessor
Fjallað verður um hvers konar ritheimildir hafi varðveist um Vínland og ferðir þangað. Staldrað verður við spurninguna um hvernig sé hægt og hvernig sé ekki hægt að nota hinar rituðu sögur, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, sem vísbendingu um minningar um Vínland, sem fólk hélt á loft á ritunartímanum; minningar sem verða ekki skýrðar öðru vísu en með því að Vínlandssögur hafi gengið mann fram af manni frá því að fyrstu Vínlandsfararnir komu heim til Íslands og fóru að segja þeim sem heima sátu frá ævintýrum sínum og annarra í löndunum vestan og sunnan við Grænland.
Annað kvöld í Landnámssetri - 7. nóvember kl. 20
Leiðbeinandi Gunnar Marel Eggertsson, skipasmíðameistari
Þriðja kvöld í Snorrastofu - 9. janúar kl. 20
Vitnisburður fornleifa um landnám og landkönnun í Vesturheimi á víkingaöld
Leiðbeinandi Orri Vésteinsson fornleifafræðingur
Vitnisburður fornleifa um landnám og landkönnun í Vesturheimi á víkingaöld
Sagt verður frá fornleifafundum sem varpa ljósi á landnám og landkönnun evrópumanna á Grænlandi og Nýfundnalandi á 10. og 11. öld. Gefið verður yfirlit um mismunandi tegundir vísbendinga sem fornleifafræðingar styðjast við til að skilja hvað gekk á og fjallað um helstu kenningar sem eru í umræðunni nú um stundir.
Fjórða kvöld í Snorrastofu - 6. mars kl. 20
Leiðbeinandi Páll Bergþórsson veðurfræðingur
Fimmta kvöld í Landnámssetri - 20. mars kl. 20
Leiðbeinandi Örnólfur Thorsson norrænufræðingur
Um bókmenntaleg einkenni Íslendingasagna, persónur og leikendur, sögusvið, stíl og orðaforða með dæmum úr ýmsum áttum, m.a. úr Vínlandssögum. Örnólfur vinnur nú að formála nýrrar endurbættrar heildarútgáfu sagnanna sem byggir á útgáfu sem gerð var fyrir þremur áratugum og kennd er við Svart á hvítu.
Lokakvöld í Landnámssetri - 3. apríl kl. 20
Grænlandsgátan
Leiðbeinandi Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur
Grænland byggðist af norrænum mönnum fimmtán vetrum áður en kristni var í lög tekin á Íslandi, segir Landnáma. Þau sem komust alla leið heilu og höldnu námu land á tveimur landsvæðum á vesturströnd Grænlands og kölluðu Eystribyggð og Vestribyggð. Snemma á 14. öld lagðist Vestribyggð af en í Eystribyggð var búið þar til um miðja 15. öld. Síðasti skjalfesti atburðurinn í Eystribyggð er brúðkaup í Hvalseyjarfjarðarkirkju 16. september 1408. Eftir það er allt hljótt. Enginn veit hvað varð um hina fornu Grænlendinga en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hvað olli brotthvarfi þeirra: drepsóttir, hallæri og hungursneyð, sjórán, átök við inúíta, flutningar til Íslands eða jafnvel vestur um haf til Vínlands hins góða.
Verið velkomin.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.