
Fyrirlestur og námskeið Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um fornleifar í Reykholti
Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur, sem stýrði fornleifarannsóknum í Reykholti frá 1987-2007, heldur fyrirlestur við Miðaldastofu Háskóla Íslands og stýrir námskeiði við Endurmenntun stofnunarinnar um rannsóknir sínar og niðurstöður þeirra.
Fyrirlesturinn, Reykholt í Borgarfirði; vitnisburður fornleifanna verður haldinn í Lögbergi (stofu 101) fimmtudaginn 21. mars kl. 16:30
og námskeiðið, Reykholt í ljósi fornleifanna verður dagana 26. og 27. mars á Dunhaga 7 í Reykjavík, kl. 20-22
Guðrún Sveinbjarnardóttir hefur setið í rannsóknarstöðum við Birmingham-háskóla, University College London, Snorrastofu og Þjóðminjasafn Íslands. Hún er okkur hér í Reykholti að góðu kunn, er handhafi hinnar íslensku fálkaorðu og hefur ritað umfangsmikil verk um rannsóknir sínar: Reykholt. Archaeological Investigations at a High Status Farm in Western Iceland. Snorrastofa & Þjóðminjasafn Íslands, 2012 og Reykholt. The Church Excavations. Þjóðminjasafn Íslands, Snorrastofa & Háskólaútgáfan, 2016. Væntanleg er bók á íslensku eftir Guðrúnu um sama efni: Reykholt í ljósi fornleifanna. Snorrastofa & Háskólaútgáfan.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir það helsta sem kom í ljós við fornleifarannsóknir í Reykholti og þróun búsetunnar sett í víðara samhengi. Þá verður gerð tilraun til að bera mannvirkin sem eru nefnd í Sturlunga sögu saman við fornleifarnar.
Reykholt í Borgarfirði er óneitanlega best þekkt fyrir búsetu Snorra Sturlusonar þar á fyrri hluta 13. aldar en þetta stórbýli og kirkjustaður á sér mun lengri sögu. Elstu minjar sem fundist hafa þar í jörðu hafa verið tímasettar til um 1000 en elsta varðveitt samtímaritheimild um staðinn er máldagi kirkjunnar sem er nú tímasettur til um 1150. Atburðum sem áttu sér stað í Reykholti á 13. öld er lýst í Sturlunga sögu sem er nánast samtímaheimild og talin vera áreiðanleg sem slík. Fornleifarannsóknirnar sem fóru fram á staðnum um árabil frá því seint á 20. öld lauk árið 2007. Þær hafa varpað ljósi á búsetu þar frá um 1000 og fram á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður farið yfir það helsta sem kom í ljós og þróun búsetunnar sett í víðara samhengi.
Núverandi vitneskja bendir ekki til þess að Reykholt hafi verið fyrsta býlið sem var byggt í dalnum en það hafði, samkvæmt ritheimildum, tekið forystu þar ekki síðar en um 1200. Rætt verður hvað gæti lengið hér að baki. Á þeim tíma sem Snorri bjó í Reykholti verða miklar breytingar á húsakosti og farið er út í miklar mannvirkjaframkvæmdir sem hafa útheimt bæði fé og mannskap. Í Sturlungu eru mörg þessara mannvirkja nefnd og gefið í skyn að Snorri hafi mjög svo haft umsjón með öllum framkvæmdum á staðnum. Rætt verður að hvaða marki unnt sé að heimfæra þessar framkvæmdir upp á hann út frá þeim heimildum sem tiltækar eru, hverjar líkurnar séu á því að áhrifa gæti í þeim erlendis frá og hvernig þessi mannvirki samlagast vitneskju okkar um húsakost annars staða í landinu á sama tíma. Að lokum verður gerð tilraun til þess að finna mannvirkjunum sem eru nefnd í Sturlungu stað í fornleifunum sem voru grafnar upp.
Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.
Nánar um fyrirlestra Miðaldastofu...
Um námskeiðið, Reykholt í ljósi fornleifanna:
Reykholt í Borgarfirði er best þekkt fyrir búsetu Snorra Sturlusonar á fyrri hluta 13. aldar. Þessu tímabili er m.a. lýst í Sturlunga sögu sem er svo til samtíma atburðunum sem lýst er. Fornleifarannsóknir hafa varpað ljósi á búsetu staðarins frá um 1000 og fram á 19. öld. Farið verður yfir helstu niðurstöður og hvernig sumar þeirra samlagast ritheimildum.
Markmiðið er að gefa innsýn inn í það hvernig fornleifafræðin getur varpað ljósi á þróun búsetu á hinum sögufræga stað Reykholti í Borgarfirði. Byrjað verður á að gefa stutt yfirlit yfir helstu aðferðir fornleifafræðinnar sem stuðst var við. Þá verður rakið það helsta sem kom í ljós á uppgraftarsvæðinu og fléttað inn í það helstu niðurstöðum annarra rannsókna á staðnum eins og t.d. umhverfisrannsókna sem geta varpað ljósi á hvernig aðstæður breyttust í aldanna rás. Leitast verður við að setja það sem fannst í Reykholti í víðara samhengi. Að lokum verða byggingaleifarnar sem komu í ljós bornar saman við frásagnir í Sturlunga sögu af húsakosti í Reykholti á 13. öld.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.