Gagnasafn um forn trúarbrögð Norðursins 25. júní 2020

Gagnasafn um forn trúarbrögð Norðursins

Liv Aurdal

Mikil vinna, metnaður og fjármagn hefur farið í hið stóra verkefni "Forn trúarbrögð Norðursins" (Pre-Christian Religions of the North, þ.e. PCRN) eða norræna goðafræði. Afurðir þess eru að koma í ljós og er allt ferlið einungis ári á eftir áætlun. Verkefnið, sem  Snorrastofa hrinti af stað árið 2008 í samvinnu við Háskóla Íslands og ReykjavíkurAkademíuna, er nú á útgáfustigi. Tvö bindi eru þegar komin út og fleiri eru á leiðinni.

Árið 2020 verður haldið áfram með verkþáttinn „Gagnagrunnur textaheimilda” í umsjá Liv Mathilde Aurdal, doktorsnema við Háskóla Íslands og starfsmanns Snorrastofu. Tveir fræðimenn unnu á sínum tíma sjálfboðavinnu við forritun gagnagrunnsins, sem verður m.a. undirstaða útgáfu bókar með úrvali frumheimilda um norræna goðafræði.

„Gagnagrunnur textaheimilda” er einn þriggja meginþátta PCRN (sjá https://skaldic.abdn.ac.uk/db.php?if=myth&table=myth). Í hinum tveimur er annars vegar fjallað um eiginlega sögu norrænnar goðafræði og hins vegar um viðtökufræðilega sögu hennar. Í verkþættinum er um að ræða útgáfu bókar með úrvali frumheimilda um norræna goðafræði ásamt gerð nettengds, stafræns gagnagrunns fyrir texta er varða forn trúarbrögð Norður-Evrópu. Unnið er að kerfisbundinni flokkun textaheimilda ásamt því að að koma þeim yfir á stafrænt form. Búinn hefur verið til leitarhæfur gagnagrunnur byggður á fræðilegum útgáfum og enskum þýðingum fjölbreyttra bókmennta-, þjóðfræði- og trúartexta á forníslensku og öðrum evrópskum þjóðtungum, latínu og grísku, ásamt rúnum.

Gagnagrunnurinn er nú þegar orðinn ómetanlegt kennslu- og rannsóknartæki fyrir jafnt fræðimenn sem nemendur, sem gerir með einföldum hætti kleift að skoða innbyrðis tengsl efnisatriða og viðfangsefna með aðstoð lykilorða og atriðisorðaskráa. Á heimsvísu veitir slíkur gagnagrunnur aðgengi að umtalsvert meiri og fjölbreyttari gögnum en áður hefur verið mögulegt.

Með þessum verkþætti er verið að byggja upp alþjóðlegan, staðlaðan og uppfæranlegan heimildagrunn fyrir fornleifafræði, sagnfræði, bókmenntafræði og aðrar fræðigreinar, grunn sem mun ekki aðeins staðfesta breidd og framsækni íslenskra rannsóknaverkefna, heldur einnig kynda undir frekari rannsóknir á mörgum nú þegar blómlegum sviðum.

Mikilvægi þessara gagna er ekki eingöngu bundið við þá sem hafa sérstakan áhuga á forngermönskum trúarbrögðum, heldur einnig fræðimenn og nemendur í íslenskum, norrænum og germönskum bókmenntum, þjóðfræði, sögu og fornleifafræði, sem og fræðimenn á sviði skyldra og tengdra trúarbragða (t.d. samískra, finnsk-úgrískra og slavneskra) og trúarbragðafræða almennt.

Reykholti, 18. febrúar 2020

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.