Gaman á barnamenningarhátíð 4. maí 2016

Gaman á barnamenningarhátíð

Þriðjudaginn 3. maí flykktust í Reykholt um 160 nemendur af miðstigi grunnskóla nágrennisins með kennurum sínum og eyddu saman líflegum degi á sögustaðnum í svölu en kyrru veðri. Dagurinn gekk undir heitinu "barnamenningarhátíð" og er það mál manna að hann hafi fyllilega staðið undir nafni.

Dagurinn var tvískiptur: að morgni sýndu nemendur sjálfir atriði sín og verk í nítjándu aldar kirkjunni og héraðsskólanum og eftir hádegishressingu var þeim boðið að fara á milli miðaldaverkstæða þar sem beið þeirra margskonar upplifanir í anda samtíðar Snorra Sturlusonar. Þegar leið á daginn sóttu ýmsir fleiri gestir staðinn heim og fylgdust með hátíðinni.

Flutt voru leikrit, sungið, lesið og sýnd videoverk, myndverk, spil, líkan af Snorralaug og verkfærum, útitjald, gerð hringabrynju og fatnaður - allt með miklum sóma.

Miðaldaverkstæðin voru: ritstofa Árnastofnunar, matstofa Búdrýginda í Árdal, eldsmiðja frá Akranesi og ratleikur í umsjón Ásu Helgu Ragnarsdóttur. Þar skapaðist sannkölluð miðaldastemning, sem börnin nutu vel og sýndu prúðmannlega og frjálslega framkomu.

Allur dagurinn rann eins og í sögu, Reykholt lifnaði heldur betur við og börnin skreyttu að segja má hvern krók og kima. Þau voru kennurum sínum og skólum til mikils sóma.

Skólarnir, sem sendu nemendur sína voru: Grunnskóli Borgarness, Grunnskóli Borgarfjarðar, Laugagerðisskóli og Reykhólaskóli.

Fosshótel framreiddi kjúkklingavefjur í hádeginu, sem Reykjagarður gaf hátíðinni og Vífilfell gaf drykkina. Þakkarverð framlög.

Snorrastofa þakkar öllum, sem lögðu sig fram um að gera þennan dag ógleymanlegan fyrir þá, sem staðinn gistu þennan eftirminnilega vordag. (Myndir tók Guðl.Ósk.)

 

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.