Gamla kirkjan máluð í upprunalegum litum að innan 20. apríl 2005

Gamla kirkjan máluð í upprunalegum litum að innan

Reykholtskirkja hin eldri.

 

Mynd_0189913

Kirkja hefur staðið í Reykholti frá því á 11. öld. Frá þvi snemma á 12. öld hefur verið þar staður og kirkjumiðstöð, þar sem nokkrir lærðir menn voru að störfum í senn.

Núverandi kirkja var byggd á árunum 1988-1996, vigð 28. júli 1996. Arkitekt kirkjunnar er Garðar Halldórsson en kirkjusmiður Stefán Ólafsson á Litlu-Brekku, Mýrum. Í kirkjunni eru steindir gluggar eftir Valgerði Bergsdóttur.

Timburkirkjuna sem nú hefur verið gerð upp, lét séra Guðmundur Helgason reisa árið 1886. Verkið önnuðust Ingólfur Guðmundsson húsasmiður sem fluttist með sóknarprestinum í Reykholt og Árni Þorsteinsson bóndi á Uppsölum í Hálsasveit. Kirkjan ber vissan svip nýklassískra húsa og í formi hennar gætir sterkra áhrifa frá dómkirkju Laurits A. Winstrup í Reykjavík, einkum í hlutföllum hússins og lögun turnsins. Kirkjan var vígð sumarið 1887 og var þá lénskirkja á ábyrgð sóknarprestins, en í ársbyrjun 1895 tók söfnuðurinn við umsjón hennar. Þegar þessi elsta bygging í Reykholti komst í vörslu Þjóðminjasafnsins hafði henni verið breytt talsvert frá upprunalegri gerð, m.a. klædd bárujárni að utan og hún fengið nýja glugga sem voru mjög frábrugðnir þeim upphaflegu. Þegar viðgerðir hófust haustið 2001 var tekið mið af upprunalegri gerð kirkjunnar. Húsinu var m.a. lyft af grunni og grafið fyrir steinsteyptum undirstöðum, en þá kom í ljós forn smiðja undir kirkjugólfinu. Fornleifafræðingar Fornleifaverndar ríkisins rannsökuðu staðinn og fundu þar heillegt eldstæði og óvenjudjúpa steinþró eða nóstokk. Tekin voru kolasýni úr eldstæðinu til aldursgreiningar og voru niðurstöður þær, að smiðjan sé frá tímabilinu 1030 til 1260. Ákveðið var að hrófla sem minnst við smiðjunni og má sjá hana undir gólfinu vinstra megin við innganginn.

Frágangi kirkjunnar var að fullu lokið sumarið 2006. Byggingameistari var Stefán Ólafsson bóndi á Litlu-Brekku á Mýrum en Gunnar Bjarnason húsameistari í Reykjavík smíðaði glugga, hurðir og skrautlista. Málari var Brynjolfur Einarsson á Lundi í Lundareykjadal. Oðrun altaris, predikunarstóls og bekkjar vann Hilmar Páll Jóhannesson frá Akranesi. Umsjón og eftirlit var sameiginlega á hendi Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar ríkisins. Gert var við gamla altarið, predikunarstólinn og altaristöfluna sem keypt var frá Danmörku 1901. Hana málaði danski málarinn Anker Lund árið 1901 eftir frægri altaristöflu sem hinn þekkti danski málari Carl Bloch, d. 1890, málaði og setti á sýningu í Charlottenborg árið 1875: Kristur consolator eða Kristur sem huggar. Anker Lund hefur merkt sér myndina í hægra horninu, Copi 1901, Anker Lund, en fyrir miðju með smáum stöfum neðst; Carl Bloch 1875.

Predikunarstóllinn er jafngamall kirkjunni, en hefur verið lagfærður nokkrum sinnum. Hann var í upphafi oðraður, þ.e. málaður í viðarlitum og á spjöldunum voru upphleyptar englamyndir, en síðustu áratugi var hann með máluðu skrauti eftir Grétu Björnsson. Nú hefur stóllinn verið oðraður á ný líkt og gamla altarið og kirkjubekkirnir. Á altarinu er dúkur úr hvítu lérefti með útklipptu mynstri og kappmellu frá miðri síðustu öld. Altarisstjakarnir eru frá 19. öld, þeir eru úr koparblöndu og silfurpletti. Orgelið var keypt til kirkjunnar frá Vesturheimi árið 1901 og hefur nýlega verið gert upp. Á kórþili er gömul söngtafla og fylgir henni stokkur með númeraspjöldum. Skírnarfontinn smíðaði Björn Jakobsson en Rikardur Jónsson myndhöggvari skar skraut og Guðmundur Einarsson leirkerasmiður frá Miðdal bjó til skírnarskálina. Gripir þessir voru gefnir kirkjunni árið 1954. Á silfurskildi á fontinum stendur: Skírnarfontur Reykholtskirkju gefinn af Guðrúnu Jónsdóttur Brennistöðum.

Kirkjan sem nú er í umsjá Þjóðminjasafnsins er minnisvarði um þá byggingarhætti og handverk sem blómstraði í lok 19. aldar þegar timburhúsaöld hófst á Íslandi.

Áður voru þar torfkirkjur um nokkurra alda skeið. Var sú síðasta byggð árið 1835 á grunni annarrar kirkju frá 1781. Þessar kirkjur stóðu ávallt þar sem nú er suðurhluti kirkjugarðsins en þar hafa fornleifafræðingar samhliða endurgerð timburkirkjunnar árin 2001 til 2006 rannsakað forna kirkjugrunna.

Sýningarhöfundur er Þóra Kristjánsdóttir, listfræðingur Þjóðminjasafns Íslands.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.