
Glæsileg Snorrahátíð 2017
Snorrastofa minntist þess á Snorrahátíð í Reykholti laugardaginn 15. júlí s.l. að sjötíu ár eru nú liðin frá því að Norðmenn afhentu Íslendingum styttu Gustav Vigeland af Snorra Sturlusyni með mikilli viðhöfn.
Hátíðin tókst afburðavel – ræður og tónlist, opnun sýningar með tilheyrandi kvikmynd og hljóðheimi, og fjöldi gesta sem naut þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Margir létu í ljós gleði sina og ánægju við aðstandendur hátíðarinnar, á þessu eftirminnilega sjötugsafmæli Snorrastyttunnar í Reykholti.
Stríðir hátíðartónar – úr blásturshljóðfærum – bárust um byggingar og hlöð uppúr kl. 14 á laugardaginn. Þeir feðgar Baldvin Oddsson á trompet og Oddur Björnsson á básúnu, sýndu hvers þeir eru megnugir.
Velkomandaminni sr. Geirs Waage var glæsilega flutt og vel viðeigandi á staðnum og stundinni.
Sr.Elínborg Sturludóttir var dagskrárkynnir, hátíðleg á íslenskum búningi, og flutti mál sitt skýrt og skorinort. Hún bauð fyrrverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, að setja hátíðina.
Ólafur Ragnar setti svo hátíðina, minnist tilefnisins fyrir sjötíu árum, og lýsti tengslum hinna fornu bræðraþjóða.
Þá flutti Reykholtskórinn þjóðsöng Íslendinga við undirleik þeirra blástursfeðga og var það mál margra áhugamanna um tónlist að sjaldan hefði kórnum tekist jafnvel upp – flutningurinn hefði verið magnaður. Viðar Guðmundsson stjórnaði kórnum að venju. Þá flutti kórinn héraðssöng Reykdæla, lag Bjarna Guðráðssonar við kvæði Jóns Helgasonar – Á Rauðsgili.
Af hálfu Noregs talaði fyrst sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie Landsverk, og að lokinni hennar tölu flutti kórinn Ja vi elsker dette landet , þjóðsöng Norðmanna. Þjóðsöngur Norðmanna er eftir Bjørnstjerne Bjørnson og Rikard Nordraak og var sömuleiðis glæsilegur í flutningi Reykholtskórsins. Þá flutti konsúll Íslands í Bergen, formaður vinasamtakanna Snorres venner í Noregi, Kim F. Lingjærde ávarp – og gat um ýmis verkefni samtakanna. Þau hafa meðal annars tekið sér að hjarta að vinna að undirbúningi á nýrri útgáfu í Noregi á ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson.
Að loknu ávarmi Kim Lingjærdes flutti kórinn Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra L. B. Sateren raddsetti, en íslenski textinn er eftir Sigurbjörn Einarsson.
Þá flutti Óskar Guðmundsson rithöfundur erindið „Saga Snorrastyttu – styttan í vitund tveggja þjóða.“
Ísland farsælda Frón – hljómaði svo um kirkjuna í flutningi þeirra lúðraþeytara, Odds og Baldvins.
Þá flutti ávarp Björn Bjarnason formaður stjórnar Snorrastofu, fyrrverandi ráðherra með meiru. Hann sló á ýmsa framtíðartóna í ávarpi sínu, gat um nýja landvinninga fyrir menningarafurðir tengdar Snorra Sturlusyni og gaf tilfinningu fyrir mikilvægi þess starfs sem unnið er á vegum Snorrastofu í Reykholti.
„Land míns föður, landið mitt…“ söng Reykholtskórinn á eftir en það var ort í tilefni af lýðveldisstofnun 1944, eftir Jóhannes úr Kötlum en lagið er eftir Þórarinn Guðmundsson.
Þá opnaði forstöðumaður Snorrastofu, Bergur Þorgeirsson, sögusýninguna - Snorrahátíðin 1947 í lifandi myndum – og sjötugur hljóðheimur. Bergur þakkaði í ávarpi sínu þeim fjölmörgu sem unnið höfðu að sýningum og undirbúningi Snorrahátíðar, frá textagerð til skreytinga, en stjórnun og skipulag slíkrar hátíðar krefst mikils undirbúnings og vinnu fjölda fólks. Þegar Bergur hafði lokið máli sínu, gaf Elínborg stjórnandi hátíðardagskrár, Gunnlaugi Júlíussyni, sveitarstjóra í Borgarbyggð orðið. Hann lýsti mikilvægi starfsemi Snorrastofu fyrir héraðið og þakklæti sveitarstjórnar í garð stofnunarinnar. Bað hann forstöðumanninn að taka við blómakörfu sem táknrænan þakklætisvott sveitarstjórnar.
Ser. Elínborg sleit svo formlega hátíðardagskránni og bauð gestum að ganga til sýningarinnar í hátíðarsal Héraðsskólans – og að skoða sýningar í kirkjukjallaranum. Fjöldi gesta gekk til sýninga staðarins og aðrir nutu veðurblíðunnar á hlöðum staðarins, þarsem veitingatjaldi hafði verið haganlega komið fyrir milli prestsbústaðar og kirkju. Hlaðið varð einsog iðandi torg þegar leið á daginn, en veður fór batnandi með degi. Fyrirhugað hafði verið að flytja alla dagskrána útivið, en þegar dró að byrjun hátíðar, leist vísum mönnum ekki á blikuna – því öðru hverju dró ský fyrir sólu og rigndi og blés hressilega. Í veitingatjaldi var einnig gott skjól og Hanna Sjöfn Guðmundsdóttir stóð fyrir sölu góðra veitinga í tjaldinu fram eftir degi.
Margir gestanna notuðu tækifærið og skoðuðu fornleifasvæðið fyrir ofan laug og við kirkjuna, en nýlegar og smekklegar merkingar hafa vakið athygli gesta og aukið skoðunargildi staðarins að miklum mun.
Myndir frá hátíðinni (Guðl. Ósk.):
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.