
Guðmundur G. Hagalín í áhugaverðu ljósi
Þriðjudaginn 24. nóvember s.l. hélt Haukur Ingvarsson bókmenntafræðingur fyrirlestur í Bókhlöðu Snorrastofu um Guðmund G. Hagalín og störf hans í Bókasafni Ísafjarðar árin 1939-1945. Haukur, sem nú vinnur að doktorsritgerð sinni um William Faulkner á Íslandi varpaði nýju og áhugaverðu ljósi á störf Guðmundar fyrir vestan og hvernig bandaríski rithöfundurinn, sem hann rannsakar nú, tengdist merku starfi bókavarðarins og atorkumannsins vestra. Eins og fram hefur komið, bjuggu þau hjónin Unnur og Guðmundur síðasta skeið ævinnar hér á Mýrum í Reykholtsdal og gáfu bókasafn sitt til Snorrastofu auk þess sem stofnunin keypti húsgögn þeirra til að hafa í fræðimannsíbúð sinni.
Hauki tókst að móta fyrir gestum heildstæða mynd af hugmyndafræði bókavarðarins, sem settur var til embættis á Ísafirði af Jónasi frá Hriflu til samræmis við Davíð Stefánsson á Akureyri. Rakin voru áhrifin frá bandarískum höfundum vinstrisinnuðum, sem meðal annars birtust í bókavali og víðsýnum viðhorfum til þarfa almennings til sjálfsmenntunar á bókasafninu.
Þessu til viðbótar benti fyrirlesarinn á það hvernig greina má áhrif Williams Faulkner á skrif Guðmundar Daníelssonar, sem dvaldi vestra og naut þjónustu bókasafnsins á Ísafirði.
Segja má að kvöldið hafi dregið fram í dagsljósið áhugaverða mynd af rithöfundinum Guðmundi G. Hagalín í hringiðu uppbyggingar mennta og menningar í bókasöfnum liðinnar aldar. Myndir teknar af Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.