Landinn kynnir sér glænýja leiðsagnartækni í Snorrastofu 20. nóvember 2017

Landinn kynnir sér glænýja leiðsagnartækni í Snorrastofu

Snorrastofa leggur mikla áherslu á að bjóða gesti velkomna í Reykholt, á stað Snorra Sturlusonar (1879-1241), og veita þeim sem besta þjónustu.

Síðastliðinn fimmtudag, 16. nóvember varð hér uppi fótur og fit, þegar Landinn með  Gísla Einarsson í fararbroddi kom á staðinn. Erindið var að kynnast nýrri leiðsagnartækni, sem sýnd var nú á haustdögum í fyrsta skipti á Íslandi á sýningu stofnunarinnar, Sögu Snorra.

Íslenska fyrirtækið Locatify hefur unnið að þróun slíkrar leiðsagnartækni á síðustu árum. Fyrst ber að telja útileiðsögn, sem Snorrastofa gerðist áskrifandi að fyrir nokkru og gaf út leiðsagnar-appið Snorra.  Það styðst við GPS-tækni utan dyra og segir sögu staðarins. Þá þáði stofnunin einnig boð Locatify um að vera tilraunastaður fyrir prófun á nýrri tækni innan dyra. Fram að þessu hefur slík tækni ekki verið nógu nákvæm til að geta þjónað sýningu á borð við Sögu Snorra, en fyrirtækið  er nú tilbúið með nýja nákvæmari tækni fyrir innisýningar. Snorrastofa hyggur á landvinninga í þessa átt og væntir þess að geta boðið gestum leiðsögn með þessari tækni á næstu misserum. Forsprakkar Locatify eru þau Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir og Leifur Björnsson.

Myndir sýna heimsókn Landans í Reykholt (G.Ósk.). Myndataka Rúv var í höndum Karls Sigtryggssonar og Einars Rafnssonar.

Umfjöllun Landans 19. nóvember s.l. má sjá hér....

Fréttatilkynning Snorrastofu um nýju tæknina:

 

Á liðnum haustdögum (2017) jók Snorrastofa við þjónustu sína við gesti í Reykholti þegar gefin var út stafræn hljóðleiðsögn um staðinn. Útgáfan hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og byggir á þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í að merkja staðinn og veita upplýsingar um hann og frægasta son Íslendinga, Snorra Sturluson.

Leiðsagnarappið heitir því einfalda nafni Snorri og er auðfundið í snjalltækjum nútímans. Það byggir á tengingu við GPS staðsetningartæknina og býður þeim sem hlaða því niður skemmri leiðsögn um Reykholtsstað og veitir upplýsingar um þjónustu á staðnum og í nágrenni sem og áhugaverða staði og afþreyingu.

Ef gestir kjósa að kynna sér Reykholtsstað nánar, sögu hans og umhverfi, leggja þeir leið sína í gestamóttöku Snorrastofu á jarðhæð Reykholtskirkju-Snorrastofu. Þar er ferðafólki veitt öll almenn upplýsingaþjónusta, boðnir styttri og lengri fyrirlestrar, sýning um sögu og samtíð Snorra Sturlusonar með hljóðleiðsögn og nánari leiðsögn um staðinn sjálfan, viðbót við Snorra-appið. Þá er ótalin hin vinsæla verslun, sem rekin er í gestastofu með fallegri gjafavöru og bókum. Bæði sýning og útileiðsögn byggja á texta Óskars Guðmundssonar rithöfundar og hvort tveggja er bæði með myndum og texta ásamt hljóðleiðsögninni á íslensku og ensku. Sýningin um Snorra Sturluson hefur einnig verið þýdd á norsku, þýsku og frönsku og á sýningunni eru spjaldtölvur með ítarefni um sýningu, viðbótartungumálum og hljóðleiðsögn sýningarinnar.

Það er íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Locatify, sem hefur smíðað leiðsagnarappið utandyra, Reykhyltingurinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari ljær rödd sína og fylgir gestum um sýningu og stað, Guðni Páll Sæmundsson vann hljóðvinnslu og Guðlaugur Óskarsson tók myndir, sem notaðar eru í appinu.

Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti Snorrastofu á sínum tíma styrk til að taka þetta framfaraspor í þjónustu við gesti og Snorrastofa þakkar þann liðsstyrk á þessum ánægjulegu tímamótum.

Fram að þessu hefur hugbúnaður Locatify ekki ráðið við þá sjálfvirku staðsetningartækni sem innbyggð er í GPS rakningu utan dyra í svo þröngu rými innan dyra, sem sýningin Saga Snorra býr við.  En nú blasa við aðrir tímar og breyttir möguleikar í slíkum aðstæðum. Á ráðstefnunni, Follow the Vikings, sem fram fór að hluta til í Reykholti  á dögunum, sýndi fyrirtækið nýja tækni við sjálfvirka leiðsögn í rými innan dyra og hvernig hún gæti nýst gestum sýninga af svipuðu tagi. Sú lausn er byggð á þeirri sömu tækni og notuð er í iðnaðarhúsnæði þar sem vélar fara um og sinna tilteknum verkum að ósk notenda. Þessi tæni getur lesið með mikilli nákvæmni hvar gesturinn er staddur í rýminu og hvaða efni er þá viðeigandi að bjóða honum til hlustunar. Ráðstefnugestir nýttu sér þessa tilraun Locatify og luku lofsorði á möguleika hennar til að þjóna gestum.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.