Lífleg dagskrá um Reykholtsverkefnið 1. desember 2019

Lífleg dagskrá um Reykholtsverkefnið

Þriðjudaginn 26. nóvember s.l. var blásið til dagskrár um lok Reykholtsverkefnisins, sem hleypt var af stokkunum árið 1999 og tókst þverfaglega á við að skoða mannlíf og staðhætti í Reykholti Snorra Sturlusonar. Kallaðir voru saman fræðimenn, innlendir og erlendir af sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði. Með verkefninu hafa skapast ómetanlegar samræður lærðra og leika og því hefur verið fylgt eftir með metnaðarfullri bókaútgáfu. Dagskráin hófst með setningu formanns stjórnar Snorrastofu, Björns Bjarnasonar. Í kjölfarið flutti Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur erindi um efni nýútkominnar bókar sinnar, Reykholt í ljósi fornleifanna, og segja má að kvöldið hafi öðru fremur verið útgáfuhóf þessarar íslensku greinargerðar um fornleifauppgröft í Reykholti, sem Guðrún hefur stýrt.  Eftir kaffihlé héldu eftirtaldir fræðimenn stutt erindi og að þeim loknum var boðið til umræðna: Guðrún Sveinbjarnardóttir: Upphaflegar hugmyndir og lok; Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur: Rekstur bús í Reykholti, landgæði og hlunnindi; Egill Erlendsson landfræðingur: Gróðurfar og sel; Helgi Þorláksson: Það sem tókst ekki að gera og bíður betri tíma; Bergur Þorgeirsson bókmenntafræðingur og forstöðumaður Snorrastofu: Framtíðarverkefni.

Umræður urðu hinar líflegustu með þátttöku áheyrenda undir dyggri stjórn Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri, sem lengi sat í stjórn Snorrastofu.

Myndir: Bergur Þorgeirsson

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.