Námskeið um Sturlu Þórðarson og Sturlungu: Fyrsta kvöld 7. október 4. október 2019

Námskeið um Sturlu Þórðarson og Sturlungu: Fyrsta kvöld 7. október

Teikning eftir Ingólf Örn Björgvinsson.

Fyrsta námskeiðskvöld vetrarins verður 7. október næstkomandi kl. 20 í Snorrastofu.

Leiðbeinandi verður Þórdís Edda Jóhannesdóttir íslenskufræðingur og yfirskrift kvöldsins er: Bókmenntalegt sjónarhorn Íslendinga sögu; sviðsetningar, lýsingar og samtöl.

Um langt árabil hafa Snorrastofa, Landnámssetur Íslands og Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi staðið fyrir námskeiði um fornsögur, sem farið hefur fram yfir vetrarmánuðina til skiptis í Landnámssetri og Snorrastofu. Námskeið vetrarins 2019-2020 verður um Sturlu Þórðarson og hans þátt í Sturlungu og það þótti því vel við hæfi að leita til nýstofnaðs Sturlufélags í Dölum um samstarf. Þannig breikkar enn grundvöllur þessa ánægjulega og frjóa mennta- og menningarstarfs á Vesturlandi og aðstandendur námskeiðsins horfa bjartsýnir til vetrarins.

Námskeiðið verður haldið 6 sinnum í vetur eins og venjulega og leiðbeinendur þess koma úr ýmsum áttum, allir þekktir sérfræðingar hver á sínu sviði. Þeir eru Einar Kárason rithöfundur, Guðrún Ása Grímsdóttir fyrrv. rannsóknarprófessor við Árnastofnun, Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar, Sverrir Jakobsson sagnfræðingur, Úlfar Bragason fyrrv. rannsóknarprófessor við Árnastofnun og Þórdís Edda Jóhannesdóttir íslenskufræðingur. Síðasta kvöld vetrarins verður haldið í Vínlandssetri í Búðardal, sem þar er í burðarliðnum.

Allir eru boðnir velkomnir að sækja námskeiðið, það kostar 21 þúsund krónur og skráning fer fram hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.