Norræna bókasafnavikan og Dagur íslenskrar tungu að baki 18. nóvember 2016

Norræna bókasafnavikan og Dagur íslenskrar tungu að baki

Lífleg vika er nú að baki í Snorrastofu og nágrenni hennar.

Börnin glöddu okkur á fyrsta degi vikunnar, mánudaginn 14. nóvember  þegar nemendur frá Kleppjárnsreykjum og Hnoðrabóli komu í bókhlöðuna og hlustuðu á Steinunni Garðarsdóttur lesa Sumarið hans Hermanns eftir Stian Hole. Eftir lesturinn hresstu þau sig á drykk frá Hönnubúð og áttu góða stund á safninu.

Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri hélt fyrirlestur þriðjudagskvöldið 15. nóvember um Mjólkurskólann á Hvanneyri og rjómabúin. Þangað taldi hann að uppsprettu þekkingar kvenna á störfum við mjólkurvinnslu mætti rekja, sem áhrif hefðu haft á starfshætti landbúnaðarins. Bjarni getur með sanni kallast merkisberi móðurmálsins okkar og því fór vel á að fyrirlestur hans félli í aðdraganda Dags íslenskrar tungu. Fyrirlesturinn var vel sóttur og umræður að honum loknum góðar.

Iðunn Steinsdóttir rithöfundur heimsótti Grunnskóla Borgarfjarðar á Degi íslenskrar tungu, allar deildir, las fyrir nemendur og ræddi við þá. Nemendur tóku henni fagnandi og dagurinn reyndist farsæll ræktunardagur íslenskrar tungu. Að skólaheimsókn lokinni þáði Iðunn og nokkrir nemendur grunnskólans heimboð aldraðra í Brún þar sem börnin lásu ljóð og rithöfundurinn las úr eigin verki, Hrólfs sögu. Þetta varð úrvals samverustund ungra og aldinna með dýrindis veitingum og spjalli.

Miðvikudagskvöldið 17. nóvember hélt Kvæðamannafélagið Snorri í Reykholti opinn fund og æfingu í bókhlöðunni. Þar voru bæði sungnar og fluttar vísur af ýmsu tagi. Fundirnir eru þriðja hvern miðvikudag hvers vetrarmánaðar og eru ánægjulegur sproti í menningarstarfi í Snorrastofu.

Prjóna-bóka-kaffið á fimmtudagskvöldinu var lokaviðburðurinn en þar sagði Iðunn Steinsdóttir frá langafa sínum og las úr bók sinni um hann, Hrólfs sögu. Páll S. Brynjarsson sagði fréttir af starfi Norræna félagsins í Borgarfirði. Í Prjóna-bóka-kaffi bókhlöðunnar, sem er annan hvern fimmtudag yfir veturinn, skapast góð og eftirsótt baðstofustemning, sem hefur notið vinsælda og kvöldið að þessu sinni var hið ánægjulegasta.

Fleiri myndir birtast síðar

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.