Norræna bókmenntavikan hófst með sögustund 25. nóvember 2018

Norræna bókmenntavikan hófst með sögustund

Snorrastofa bauð yngstu nemendum á Kleppjárnsreykjum að koma í sögustund í bókhlöðunni mánudagsmorguninn 12. nóvember s.l., en það markaði upphaf Norrænu bókmenntavikunnar, sem við höldum í heiðri ásamt Degi íslenskrar tungu, sem passar ljómandi að viðburðum vikunnar.

Börnin hlustuðu af athygli á söguna, Handbók fyrir ofurhetjur eftir Elias og Agnes Våhlund, sem Ingibjörg Kristleifsdóttir las. Hægt var að sýna bókina á tjaldi um leið og hún var lesin og það jók á upplifun barnanna. Þegar lestrinum lauk, voru allir mjög spenntir fyrir að fá að heyra framhaldið, sem bíður í næstu bók. Lesturinn hafði tilætluð áhrif, vakti áhuga á efninu og hvatti til áframhaldandi eigin lesturs.

Eftir sögustundina veitti Hönnubúð gestunum svaladrykk og börnin vildu gjarnan festa eitthvað af sögustundinni á sitt eigið blað. Bókhlaðan geymir verk barnanna frá hverju ári og á orðið dágott safn af teikningum gesta í sögustundum af þessu tagi.

Börnin gæddu húsið skemmtilegu lífi með nærveru sinni og starfsfólk Snorrastofu ásamt sögumanninum kvöddu þau og kennara þeirra með þakklæti.

Myndir (J.E.)

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.