
Ný bók um fornleifauppgröft á kirkjustæði í Reykholti
Þriðjudagurinn 25. október s.l. var stór dagur í rannsóknarsögu Snorrastofu en þá kom út ný bók eftir dr. Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðing, Reykholt. The Church Excavations, þar sem gerð er grein fyrir uppgrefti á kirkjustæði fornkirkna staðarins á árunum 2002-2007. Útgefendur eru Þjóðminjasafn Íslands, Snorrastofa og Háskólaútgáfan. Bókin verður til sölu í safnbúð Þjóðminjasafnsins og í verslun Snorrastofu.
Þó að Reykholt hafi líklega verið höfðingjasetur allt frá því að þar var fyrst byggt, er staðurinn best þekktur fyrir búsetu Snorra Sturlusonar þar á fyrra helmingi 13. aldar, höfundar Snorra Eddu og Heimskringlu meðal annarra verka. Reykholt varð einn af hinum fyrstu stöðum, í kirkjusögulegri merkingu orðsins, snemma á 12. öld og var þá einnig goðorð. Elstu fornminjar á bæjarstæðinu hafa verið tímasettar til um 1000 og tilheyra því annarri kynslóð byggðar á Íslandi. Kirkja virðist hafa verið reist á staðnum um svipað leyti eða örlitlu síðar.
Seint á 19. öld var kirkjan færð aðeins norðar í kirkjugarðinn, þar sem hún stendur enn, en það veitti aðgang að gamla kirkjustæðinu sem var grafið upp á árunum 2002-2007. Niðurstöðurnar eru birtar í þessari bók. Rannsóknirnar beindust eingöngu að byggingunum þar sem kirkjugarðurinn umhverfis þær var í notkun þar til í byrjun 20. aldar. Fjórar mismunandi byggingategundir voru grafnar upp, hver ofan á annarri, en þeim var skipt í átta byggingarstig. Elstu þrjár byggingarnar voru niðurgrafnar um meira en meter, en engar slíkar kirkjur eru þekktar annars staðar á Norður Atlantshafssvæðinu. Miðaldabyggingarnar eru taldar hafa verið stafverkshús, með fyrirmyndir t.d. í Noregi. Byggingargerðin breytist við siðaskiptin á 16. öld, og frá 17. öld eru varðveittar nákvæmari lýsingar á byggingunum í úttektum. Við uppgröftinn fannst fjöldi gripa, þar með talið innfluttir gripir sem unnt er að aldursgreina. Aðeins þær grafir sem voru inni í húsgrunnunum voru rannsakaðar. Athyglivert er að í 18. aldar kirkjunni var hópur einstaklinga sem tilheyrði sömu fjölskyldunni grafinn.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.