Ráðstefnudagur Follow the Vikings 27. október 2017

Ráðstefnudagur Follow the Vikings

Fimmtudaginn 26. október var haldinn hér í Reykolti síðari dagur ráðstefnu á vegum alþjóðlega verkefnisins, Follow the Vikings, sem hafði þá staðið frá því á þriðjudeginum áður í Reykjavík. Snorrastofa hýsti ráðstefnuna og Sigrún Þormar verkefnisstjóri hafði umsjón með þessum Reykholtshluta.

Fréttatilkynning verkefnisins:

Mikil vakning er varðandi menningararfleifð víkinganna. Við sjáum sjónvarpsþáttasamning Paramount Pictures við Bergsvein Birgisson um Svarta víkinginn og Rokkóperu byggða á Eddukvæðum í uppsetningu Þorleifs Arnar í Þýskalandi. Heiminn þyrstir í að fræðast meira um þennan forna menningarheim. Hinn heimfrægi rithöfundur Neil Gaiman gaf á þessu ári út bókina Norse Mythology þar sem hann vinnur með arfinn úr Eddukvæðunum.  Í vikunni fyrir kosningar var haldin hér á landi ráðstefnan, Follow the Vikings, sem vert er að segja frá.

Samnefnt verkefni hófst árið 2015 og stendur 4 ár. Verkefnið hlaut veglegan styrk úr menningarsjóði ESB, en markmið verkefnisins er að skapa tenglanet milli þeirra safna og setra sem sinna þessu tímabili víkinganna og efla kynningu á þessu stórmerkilega tímabili í sögu Evrópu. Einn hluti verkefnisins er að hrinda af stað nýrri myndasögu, sem ætluð er börnum eldri en 10 ára en að því verki vinna nánir samverkamenn Neil Gaiman þau Cat Mihos frá Bandaríkjunum og Jouni Koponen frá Finnlandi. Á ráðstefnunni kynntu þau myndasöguna.

Aðilar að verkefninu, Follow the Vikings, eru; Fotevikens Museum, Vikingagården Gunnes Gård, Trelleborgmuseet, Nationalmuseet i København, Shetland heritage and Culture, Concello De Catoira, Waterford Treasures, Rosalia,  Museum Vest Sjælland, Bengtskår Finland, Avaldsnes Norges eldste kongesete, Dublinia, Jorvik, Lofotr Vikingmuseum, Sør Troms Museum og síðast en ekki síst fyrir Íslands hönd,  Samtök um söguferðaþjónustu.

Haldnar eru tvær ráðstefnur á ári hverju og að þessu sinni var komið að okkur hér á landi að halda slíka ráðstefnu. Upphaf ráðstefnunnar þriðjudaginn 24. október var heimsókn stjórnar verkefnisins á Bessastaði. Um 89 manns voru skráðir til leiks og næsta dag hófst sjálf ráðstefnan formlega í Norræna húsinu með fyrirlestrum. Þar hélt Inga Hlín Pálsdóttir frá Íslandsstofu kynningu fyrir Íslands hönd.

Seinni dagin lögðu ráðstefnugestir land undir fót upp í vígi Snorra Sturlusonar í Reykholti. Þar tók Snorrastofa á móti gestum og hýsti fyrirlestra og hressingu. Fosshótel Reykholt sá um hádegisverðinn og starfsemi þessa heilsárshótels á staðnum rennir enn frekari stoðum undir slíka heimsókn. Kristján Guðmundsson frá Markaðstofu Vesturlands hélt fyrirlestur ásamt Óskari Guðmundssyni  rithöfundi og Gísla Sigurðssyni prófessor við  Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig héldu kynningar Emely Lethbridge, sem kynnti vef sinn um landakort fornsagna (http://sagamap.hi.is/is/) og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir frá fyrirtækinu Locatify sem kynnti nýja tækni innihljóðleiðsagnar sem sett hafði verið upp á sýningu Snorrastofu, Saga Snorra, í tilefni dagsins. Snorrastofa kynnti einnig nýja hljóðleiðsögn frá Locatify um staðinn, sem gestum þar stendur framvegis til boða. Þá gekk sr. Geir Waage um svæðið með ráðstefnugestum, sýndi þeim fornleifarnar og sagði frá eins og honum einum er lagið.

Heimsóknin hingað á Vesturland vakti mikla hrifningu hinna erlendu gesta, sem voru ánægðir með móttökur allar og dagurinn endaði með veglegum kvöldverði og skemmtun í Landnámssetrinu í Borgarnesi.

Það er jákvætt að Samtök um söguferðaþjónustu skuli leiða til Íslands svo metnaðarfullt, alþjóðlegt verkefni, sem við getum stolt tekið á móti. Þeir sem starfa í samtökunum á Vesturlandi sýndu að þeir geta með góðu móti hýst slík verkefni og heimsókni var öll hin ánægjulegasta.

Myndir Guðl.Ósk.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.