Samstarfssamningur Snorrastofu og ítalsks miðaldabæjar 26. september 2023

Samstarfssamningur Snorrastofu og ítalsks miðaldabæjar

Bæjarstjóri hins ítalska bæjar Gradara, Filippo Gasperi, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti, undirrituðu á sunnudag formlegan samstarfssamning Snorrastofu og bæjarins. Um leið sótti Bergur málþingið „Gaming and Cultural Heritage“ á leikjahátíðinni Gradara Ludens Festival 2023 í þessum fallega 5000 manna bæ á austurströnd Ítalíu rétt suður af Rimini. Dvaldi Bergur á staðnum í boði bæjarins, sem skartar mikilfenglegu virki og miðaldakastala. Fyrir það fyrsta tengdist ferðin metnaði Snorrastofu að þróa sýningar í öllu gamla skólahúsinu í Reykholti, þegar það kemst loks í hendur stofnunarinnar. Í öðru lagi spratt hún upp úr rannsóknarverkefni Snorrastofu og Háskólans í Edinborg um Harald harðráða og ævintýri hans á Miðjarðarhafinu, sem Snorri Sturluson tók fyrir í Heimskringlu. Til Gradara koma um 500 þús. ferðamenn á ári, þar af 150 þús. börn í skólaferðalögum á vorin og haustin. Er því staðurinn eins og Reykholt og Snorrastofa í þriðja veldi og getur Snorrastofa tekið sér ýmislegt til fyrirmyndar í Gradara á sviði sýninga, miðlunar fornminja og hvers kyns viðburða.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.