Styrkir til rannsókna á ritmenningu íslenskra miðalda - RÍM 4. mars 2020

Styrkir til rannsókna á ritmenningu íslenskra miðalda - RÍM

Auglýsing um styrki til rannsókna á ritmenningu íslenskra miðalda - RÍM:

 

Í tilefni af því að árið 2019 voru 75 ár liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, vinna forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofa í Reykholti að átaksverkefni til fimm ára um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda.

Fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis auglýsir Snorrastofa nú eftir umsóknum um styrki vegna verkefnisins fyrir árið 2020.

Hlutverk sjóðsins er að styrkja rannsóknir á sviði ritmenningar íslenskra miðalda, m.a. með því að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði.

Verkefnið skiptist í tvo verkþætti: Annars vegar að rannsaka menningarminjar og umhverfi tengt þessum stöðum og hins vegar handrita- og bókmenningu þeirra. Umsóknir verða metnar með tilliti til vísindalegs og menningarsögulegs gildis.Vonir standa til að nákvæmar lýsingar verði unnar á þeim ritmenningarstöðum, sem verða fyrir valinu og rök færð fyrir menningarlegu vægi þeirra handrita og bókmenntaverka sem stöðunum tengjast. Áætlað árlegt fé til sjóðsins er 35 m.kr. á tímabilinu 2020 til 2024.

Umsóknum um styrki úr sjóðnum skulu fylgja greinargóðar upplýsingar um fyrirhuguð verkefni á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Sé fyrirhugað að sækja um styrk til verkefnis, sem taka mun fleiri en eitt ár að vinna, skal umsækjandi gera grein fyrir heildarmarkmiðum verkefnis, áfangaskiptingu og kostnaðaráætlun hvers áfanga. Styrkveitingu fylgir ekki skuldbinding til að veita styrki til síðari áfanga verkefnis.

Umsóknarfrestur er til og með 24. mars 2020. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur koma ekki til álita við úthlutun.

Úthlutanir úr sjóðnum eru á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytis að fenginni umsögn sérstakrar úthlutunarnefndar. Snorrastofa hefur eftirlit með að styrkt verkefni séu unnin í samræmi við þær úthlutunarreglur, sem birtar eru á heimasíðu Snorrastofu. Heimilt verður að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum frá umsækjendum eftir því sem þurfa þykir.

12. febrúar, 2020

Snorrastofa,

320 Reykholt

Sími: 433 8000 og 893 1492

www.snorrastofa.is

snorrastofa@snorrastofa.is

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.