
Styrkur úr Menningarsjóði Sparisjóði Mýrasýslu
Snorrastofa fékk styrk að upphæð 1 milljón króna úr menningarsjóði Sparisjóðs Mýrasýslu vegna þverfaglegs rannsóknarverkefnis um sel Reykholts í Borgarfirði með megináherslu á sel í tíð Snorra Sturlusonar. Í rannsókninni verður kannað skipulag landnýtingar, miðað við þær forsendur sem náttúra og landslag bauð upp á, og leitast verður við að skilja mikilvægi og hlutverk seljabúskapar fyrir Reykholt sem kirkjumiðstöðvar og valdamiðstöðvar, einkum í tíð Snorra. Jafnframt verður kannað hvaða munur var á hlutverki og framleiðslu hinna mismunandi selja. Rannsökuð verða sel Reykholts á tveimur stöðum í Kjarardal, sel Reykholts í Faxadal og jafnframt verður landnýting könnuð í þessu sambandi, svo og nýting á landi Reykholts í Geitlandi, en þar var m.a. mikilvægt beitarland. Hvort haft var í seli í Geitlandi er óvíst, en það verður rannsakað.
Gert er ráð fyrir að rannsóknin, sem er framhald Reykholtverkefnisins, nái til þriggja ára og verður lögð áhersla á að rannsaka vistfræði umhverfis í nágrenni selja sem víst þykir eða líklegt er að Reykholt hafi átt í tíð Snorra í þeim tilgangi að meta hverjar voru forsendur seljabúskapar. Enn fremur verða rannsakaðar heimildir um búsetu og nýtingu selja, svo og fornminjar, til að hægt sé að meta umfang seljabúskaparins og tengja veldi Snorra Sturlusonar í Reykholti. Þá verður metið hvort vistkerfi hafi breyst frá landnámi til dagsins í dag í því skyni að leggja mat á breytingar til langs tíma, þar með talið eftir að veldi Snorra var allt. Reykholt átti sel í Kjarardal í tíð Snorra en það var fært til í dalnum og verður reynt að varpa ljósi á það, líklegan tíma og ástæður. Á tíma Snorra átti Reykholt ítök í Faxadal og var þar beit en hvenær Reykhyltingar fóru að nýta landið þarna fyrir sel er óvíst. Ætlunin er að kanna það.
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.