Þjóðbúningaþing í Reykholti 4. ágúst 2023

Þjóðbúningaþing í Reykholti

Setning þingsins fór fram í Þjóðminjasafni Íslands þriðjudaginn 8. ágúst þar sem Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður og Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra fluttu ávörp. Að setningu lokinni héldu þátttakendur, sem voru ríflega fimmtíu talsins frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum og Grænlandi sem leið lá í Reykholt með viðkomu á þjóðbúningasýningu sem nú stendur yfir í Safnahúsi Borgarfjarðar.

Fundardagar voru þrír frá miðvikudegi til föstudags. Dagskráin byggðist á fyrirlestrum og styttri erindum sem tengdust þema þingsins: Skreytingar á þjóðbúningum. Búningar landanna eru fjölbreytilegir og erindin sömuleiðis. Sérstaða þingsins felst í því að þar hittist fræðafólk jafn sem faglærðir handverksmenn og áhugafólk. Sagt er frá rannsóknum, athugunum, sýningum, bókum, handverki og fleiru sem tengist búningunum. Á milli dagskráliða skiptist fólk á upplýsingum, kunnáttu og þekkingu sem nýtist til að viðhalda hefðinni. Þátttakendur fengu einnig tækifæri til að læra tiltekið handverk með því taka þátt í stuttu kvöldnámskeiði sem hvert land bauð upp á. Þá var notaleg stemmning í bókasafninu þar sem safnast var saman eitt kvöldið í óformlegri dagskrá, skoðaðar bækur og handverk sem gestir höfðu meðferðis og tækifæri gafst til að halda áfram með verkefnin frá áðurnefndu kvöldnámskeiði. 

Ísland á sér merka búningasögu, en í tilefni af þinginu var samfella Guðrúnar Skúladóttur (hluti faldbúningsins) fengin að millisafnaláni frá Þjóðminjasafni Íslands (ÞJMS 1770) í samvinnu við Snorrastofu til skoðunar í Reykholti. Auk hefðbundinnar ráðstefnudagskrár kynntust gestir sögu Reykholts og Snorra Sturlusonar, skoðuðu Hraunfossa og heimsóttu Pál á Húsafelli. Á lokakvöldinu klæddust þátttakendur þjóðbúningum landa sinna, móttaka var í Snorrastofu, hátíðarkvöldverður á hótelinu og stigin dans úti við. 

---

Ljósmyndir: Heimir Hoffritz

1_mynd Prúðbúnir þátttakendur í þjóðbúningum landa sinna á lokakvöldi Norræna þjóðbúningaþingsins sem fram fór í Reykholti 8.-12. ágúst.

2_mynd Gestir þingsins í móttöku í Snorrastofu á lokakvöldinu.

3_mynd Undirbúningsnefnd þingsins skipuðu (frá vinstri) Margrét Valdimarsdóttir fyrrverandi formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Kristín Vala Breiðfjörð núverandi formaður félagsins og Elín Jóna Traustadóttir frá Tungufelli.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.