
Verðlaun fyrir steinda glugga í Reykholtskirkju
Valgerður Bergsdóttir hlaut heiðursverðlaun Myndstefs 2006 sem afhent voru af Forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands þriðjudaginn 21. nóvember. Valgerður er heiðruð fyrir steinda glugga í Reykholtskirkju, sýningarnar Teikn og hnit og AND-LIT í Gerðarsafni og fyrir fjölþætt störf á vettvangi íslenskrar myndlistar sem kennari, stjórnandi og myndlistarmaður.
Er þetta í annað sinn sem Heiðursverðlaunum Myndstefs, Myndhöfundasjóðs Íslands, er úthlutað. Kallað var eftir ábendingum frá aðildarfélögum Myndstefs, sem og frá einstökum félagsmönnum, og valdi þriggja manna dómnefnd, skipuð þeim Valgerði Hauksdóttur myndlistarmanni, Pétri Ármannssyni arkitekt og Björgólfi Guðmundssyni, stjórnarformanni Landsbanka Íslands, sexmenningana úr þeim hópi.
Gluggarnir í Reykholtskirkju eru fyrsta verkið sem Valgerður hannar fyrir gler, en glervinnan fór fram í Þýskalandi. Dómnefnd segir m.a. í áliti sínu um gluggana: „Frjálslega teiknuð og samfléttuð hringform mynda þar meginstef ásamt mismunandi blæbrigðum hliðstæðra litatóna. Valgerður er í hópi færustu teiknara og í þessu verki tekst henni að yfirfæra frjálst og leikandi handbragð yfir í miðil glersins á þann veg sem ekki hefur áður sést.".
Árið 1992 var efnt til samkeppni um gerð glugga úr steindu gleri í Reykholtskirkju og urðu tillögur Valgerðar Bergsdóttur myndlistarmanns fyrir valinu, en þær sækja efnivið í Jóhannesarguðspjall og sólarljóð. Ýmsan fróðleik um gluggana er að finna í greinargerð listamannsins með verkinu en hana má nálgast í safnaðarsal.
Í júlí 2003 voru settir upp stafngluggar kirkjunnar en þeir eru gjöf frú Margrétar Þ. Garðarsdóttur til minningar um eiginmann hennar, Halldór H. Jónsson arkitekt. Uppsetningu og vinnu við glugga í stúkum á suður- og norðurhlið kirkjunnar lauk á þessu ári í tengslum við 10 ára vígsluafmæli kirkjunnar.
Auk Valgerðar voru Andrés Kolbeinsson ljósmyndari, Atli Hilmarsson grafískur hönnuður, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt og myndlistarmennirnir Birgir Andrésson og Rúrí tilnefnd til heiðursverðlaunanna.
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.