Viðburðaskrá veturinn 2017-2018 komin út 16. október 2017

Viðburðaskrá veturinn 2017-2018 komin út

Einn af fornbílum Tryggva Konráðssonar staðarráðsmanns í Reykholti prýðir viðburðaskrá Snorrastofu 2017-18.

Skrá um fyrirlestra og viðburði komandi vetrar 2017-2018, berst nú heimilum í Borgarfjarðarhéraði og greinir hún frá dagskrá, sem í vændum er á vegum Snorrastofu í Reykholti.

Samkvæmt stofnskrá Snorrastofu stuðlar hún m.a. að rannsóknum og veitir fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni og Reykholti og er einnig ætlað að kynna sögu Borgarfjarðarhéraðs sérstaklega. Í viðburðaskránni má sjá, hvernig stofnunin hyggst ná þessum markmiðum sínu og kennir þar margra grasa.

Fyrirlestrar í héraði er röð fyrirlestra, sem lifað hefur um árabil og er að meðaltali einu sinni í hverjum vetrarmánuði. Segja má að viðfangsefni þeirra séu af margbreytilegum toga í samræmi við ofangreind markmið og flytjendur komi úr ýmsum áttum. Fjölbreytnin er sérstakt ánægjuefni og þegar ungt fólk úr héraðinu stígur á stokk og greinir frá viðfangsefnum sínum og rannsóknarefnum vex ánægjan enn. Fornsagnanámskeið í samvinnu við Landnámssetrið í Borgarnesi og Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi er einnig að finna í skránni, opnir fundir og æfingar Kvæðamannafélagsins Snorra í Reykholti, þriðja miðvikudag í mánuði hverjum sömuleiðis svo og hið vinsæla Prjóna-bóka-kaffi, sem er hálfsmánaðarlega á fimmtudögum. Það er kærkomin og notaleg stund með baðstofublæ þar sem margt ber á góma undir hannyrðasón og kaffisopa í umhverfi þar sem bækurnar umvefja gesti og andrúmsloftið allt. Þá stendur stofnunin einnig fyrir málþingi um Eddukvæðin og þýðingar þeirra og um miðjan nóvember verður Norræna bókasafnavikan í heiðri höfð ásamt Degi íslenskrar tungu, sem fellur í sömu viku.

Viðburðaskráin birtir einnig grunnupplýsingar um starfsemi Snorrastofu, sem snýr að almennri gestamóttöku og upplýsingaþjónustu, sýningum, bókaútgáfu, aðstöðu til fræðistarfa og listsköpunar og ráðstefnuaðstöðu, sem stendur fyllilega undir nafni. Með starfsemi Fosshótelsins í Reykholti getur staðurinn hýst stórar og litlar ráðstefnur og vinnufundi í fögru umhverfi, sem er í ákjósanlegri fjarlægð frá ysi og þysi borgarinnar.

Þessu til viðbótar má geta þess að í burðarliðnum er nú hljóðleiðsögnin Snorri (app) um Reykholtsstað, sem gefinn verður út nú í haust og eykur til muna þjónustu við gesti og gangandi. Það er keppikefli Snorrastofu að hver sá er sækir staðinn heim njóti hans á sem fjölbreytilegasta máta, inni og úti. Framundan er líflegur vetur þar sem margir munu leggja stofnuninni þakkarvert lið við að ná markmiðum sínum.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.