Fyrirlestrar í héraði: „Reyndu á flugi frelsi þitt“
23. febrúar 2016

Fyrirlestrar í héraði: „Reyndu á flugi frelsi þitt“

Bókhlaða Snorrastofu

Um líf og ljóð borgfirsku skáldkonunnar Júlíönu Jónsdóttur (1838-1917), fyrstu konunnar sem gaf út ljóðabók á Íslandi.

Helga Kress prófessor flytur. Kaffiveitingar og umræður. Aðgangur kr. 500

Júlíana er fædd á Búrfelli í Hálsasveit, dóttir einstæðrar móður. Hún ólst upp í Síðumúla í Hvítársíðu og varð síðar vinnukona víða um Vesturland, m.a. í Akureyjum á Breiðafirði sem hún síðar kenndi sig við. Hún gaf ekki aðeins út fyrstu ljóðabók sem út kom á Íslandi eftir íslenska konu, Stúlku, Akureyri,1876, heldur samdi hún fyrsta leikrit sem varðveist hefur eftir íslenska konu, Víg Kjartans Ólafssonar, með efni úr Laxdælu, sem sviðsett var í Stykkishólmi 1879. Skömmu síðar fluttist hún til Vesturheims þaðan sem hún átti ekki afturkvæmt.  Ári áður en hún lést kom út í Winnipeg önnur ljóðabók hennar, Hagalagðar, 1916. Júlíana var fátæk vinnukona, “stúlka”, alla sína ævi, hún giftist ekki og eignaðist ekki börn.

Í fyrirlestrinum verður einkum fjallað um ævi Júlíönu eins og hún birtist í ljóðum hennar, með áherslu á sjálfsmynd hennar sem konu og skálds gagnvart sterkri bókmenntahefð karla, en einnig mynd átthaganna í ljóðum hennar, en eftir komuna til Vesturheims þjáðist hún af heimþrá sem hún leitaðist við að upphefja með skáldskap, þar sem hún m.a. ferðaðist til Íslands í huganum. Þá verður sagt frá rannsóknaferð minni á slóðir hennar í Vesturheimi fyrir nokkrum árum og heimildum sem mér áskotnuðust þar, m.a. fjórum bréfum sem hún skrifaði vinkonu sinni frá síðasta dvalarstað sínum í Blaine í Washingtonríki, þar sem hún lést og er grafin. Þessi bréf eru það eina sem varðveist hefur af eiginhandarritum Júlíönu.

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.