Fyrirlestrar í héraði: 9 atriði sem enginn sagði mér um nýsköpun
14. febrúar 2017

Fyrirlestrar í héraði: 9 atriði sem enginn sagði mér um nýsköpun

Bókhlaða Snorrastofu

Hjálmar Gíslason stofnandi Data Market og nú framkvæmdastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Qlik í Bandaríkjunum flytur. Fyrirlesturinn er samstarfsverkefni Snorrastofu og Framfarafélags Borgfirðinga.

Hjálmar Gíslason er fæddur og uppalinn á Hvanneyri. Hann hefur komið víða við í heimi upplýsingatækninnar og tekist þar á hendur eftirtektarverð verkefni. Sjálfur kallar hann sig áhugamann um tæknimál, frumkvöðul og blaðamann (journalist) og hefur eftirfarandi orð um sjálfan sig og fyrirlesturinn:

"Ég er Hvanneyringur og hef frá unglingsárum fengist við nýsköpun af ýmsu tagi. Á síðastliðnum 20 árum hef ég stofnað fjögur tæknifyrirtæki og komið að uppbyggingu og rekstri allmargra annarra bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Í dag starfa ég sem "framkvæmdastjóri gagna" hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Qlik í Boston, en árið 2014 keypti Qlik íslenska fyrirtækið DataMarket sem ég stofnaði.

Í fyrirlestrinum langar mig að segja örlítið frá reynslu minni og fara yfir hluti sem ég tel mig hafa lært á leiðinni, sérstaklega hluti ég vildi að einhver hefði sagt mér áður en ég lærði þá af reynslunni - stundum nokkuð óþyrmilega.

Þó mín reynsla sé mest á sviði hugbúnaðar er nýsköpun í grunninn alls ekki svo ólík hvert svo sem viðfangsefnið er. Ég held þess vegna að sumt af því sem ég hef frá að segja eigi ekki síður erindi til þeirra sem eru að fást við nýja og spennandi hluti í Borgarfirðinum, hvort sem er á sviði ferðamennsku, matvælaframleiðslu, menningar - nú eða hugbúnaðar. Ég þykist langt í frá hafa öll svör á reiðum höndum, en aðrir geta kannski hermt eftir einhverju af því sem gekk vel, og forðast að sama skapi mistökin.

Ég er líka forvitinn að kynnast betur því sem er að gerast á þessu sviði á mínum gömlu heimaslóðum og vonandi gefst góður tími fyrir spurningar og spjall að erindinu loknu."

Kaffiveitingar og umræður, aðgangseyrir kr. 500

Aðstandendur hvetja Borgfirðinga til að láta þetta einstaka tækifæri ekki fara fram hjá sér og hugleiða og ræða svo áhugavert efni.

Aðgangur kr. 500.

Verið öll velkomin.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.