Fyrirlestrar í héraði: Bréf til bróður míns
3. mars 2020

Fyrirlestrar í héraði: Bréf til bróður míns

Bókhlaða Snorrastofu

Þriðjudaginn þriðja mars flytur Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur, fyrirlesetur um ævi og bréf hvundagshetjunnar, Sigríðar Pálsdóttur (1809-1871).

Að venju verður boðið til kaffiveitinga og umræðna, aðgangur kr. 1000

Sigríður Pálsdóttir skrifaði Páli Pálssyni bróður sínum 250 bréf um ævina. Fyrstu bréfin voru skrifuð í hennar nafni árið 1817 en síðasta bréfið skrifaði hún fáeinum vikum fyrir andlát sitt. Hún er langstærsti bréfritarinn af þeim rúmlega 160 sem finna má í safni Páls. Erla Hulda hefur fengist við rannsóknir á ævi og bréfum Sigríðar um árabil og er að skrifa ævisögu hennar.

Í fyrir lestrinum verður nokkrum þráðum rannsóknarinnar fléttað saman. Í fyrsta lagi er fjallað um ævi Sigríðar, allt frá því hún fæðist á Hallferðarstöðum í Hróarstungu til þess hún deyr rúmlega sextug á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Sérstök áhersla verður lögð á þau ár sem hún bjó í Borgarfirði, fyrst í Reykholti 1833-1840, gift sr. Þorsteini Helgasyni sem fórst í Reykjadalsá í mars 1839 og síðan á Síðumúla í Hvítarársíðu 1840-1845. Í öðru lagi verður rætt um fræðilegt samhengi rannsóknarinnar. Með því er annars vegar átt við álitamál varðandi notkun og túlkun sendibréfa í sagnfræðirannsóknum en hins vegar ævisögu sem aðferð til þess að rannsaka fortíðina og miðla um hana þekkingu. Sigríður Pálsdóttir fellur ekki að ríkjandi hugmyndum um verðugt viðfangsefni ævisöguritunar því bæði er hún kona og svo gerði hún í sjálfu sér ekkert „merkilegt“ um ævina. Í því felst einmitt skemmtileg áskorun, því eins og sjá má í béfum Sigríðar og fjölskyldu hennar dreif ýmislegt frásagnarvert á daga hennar.

Erla Hulda er Snæfellingur, alin upp á Minni-Borg í Miklaholtshreppi. Hún er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 2011. Rannsóknir Erlu Huldu eru einkum á sviði kvennasögu og kyngervis, sendibréfa og fræðilegra ævisagna. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknarefni sín, bæði hér á landi og erlendis jafnframt því sem hún hefur ritstýrt bókum. Árið 2011 kom út eftir hana bókin Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903.

Af greinum sem Erla Hulda hefur skrifað um ævi og sendibréf Sigríðar Pálsdóttur og fjölskyldu hennar má nefna:

„A Biography of Her Own. The Historical Narrative and Sigríður Pálsdóttir”, Biography, gender and history: Nordic Perspectives. Cultural History – Kulttuurihistoria 14. Ritstjórar Erla Hulda Halldórsdóttir, Maarit Leskilä-Kärki, Tiina Kinnunen og Birgitte Possing (Turku: k&h, Turku University, 2016), bls. 81–100.

„Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu”, Saga LIII:1 (2015), bls. 121–139.

„‘Do Not Let Anyone See This Ugly Scrawling’: Literacy Practices and the Women's Household at Hallfreðarstaðir 1817–1829“, Life Writing 12:3 (2015), bls. 289–308. DOI: 10.1080/14484528.2015.1004352

„Kvennabréfin á Hallfreðarstöðum. Hagnýting skriftarkunnáttu 1817–1829“, Saga LI:2 (2013), bls. 57–91.

„Táknmynd eða einstaklingur? Kynjað sjónarhorn sögunnar og ævi Sigríðar Pálsdóttur“, Skírnir 187 (vor) 2013, bls. 80–115.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.