Fyrirlestrar í héraði: Eins og þruma úr heiðskíru lofti - eru fornsagnir nothæfar í nútíma?
14. nóvember 2017

Fyrirlestrar í héraði: Eins og þruma úr heiðskíru lofti - eru fornsagnir nothæfar í nútíma?

Bókhlaða Snorrastofu

Í Norrænu bókasafnavikunni, þriðjudaginn 14. nóvember næstkomandi flytur Friðrik Erlingsson rithöfundur fyrirlesturinn "Eins og þruma úr heiðskíru lofti - eru fornsagnir nothæfar í nútíma?" í Bókhlöðu Snorrastofu kl. 20:30. Boðið verður til kaffiveitinga að venju og umræðna þar á eftir. Aðgangur er kr. 500.

Um efni fyrirlestursins segir Friðrik: „Ef höfundur þekkir sitt erindi þá er honum vandalaust að velja hvað honum hentar: að setja frásögnina í nútíð, framtíð eða fortíð. Velji hann fortíðina þá er honum jafnfrjálst að velja hvaða persónu sem er að fyrirmynd og steypa saman, ef honum þóknast, persónum og sögusviðum úr hvaða verkum öðrum sem honum og efninu hentar best. Það er hið skilyrðislausa frelsi sem höfundur verður að gefa sér. Rekist hann á heilaga kú ber honum að slátra henni miskunnarlaust. Rekist hann á óbifanlegan almennt viðurkenndan sannleik skal hann kalla það allt lygi, þvaður og hjóm og snúa upp á það einsog honum sýnist og að síðustu skyldi hann brenna allar brýr að baki sér. Aðeins þannig og ekki öðruvísi verður höfundur að vinna ef hann ætlar að skapa eitthvað nýtt úr fornu efni.“

Friðrik hefur reynslu af því að vinna sögur úr norrænum goðsögnum, meðal annars í alþjóðlegu teiknimyndinni um Þór og í bókinni Þór - Leyndarmál guðanna, auk þess að fjalla um nýtt sjónarhorn á hinn alræmda Mörð Valgarðsson, en Friðrik hefur skrifað einleik byggðan á persónu Marðar. ”Var Mörður kannski góði gæinn í sögunni, eftir allt?”, spyr Friðrik að lokum.

Friðrik lætur ekki þar við sitja í bókasafnavikunni, heldur heimsækir hann einnig Grunnskóla Borgarfjarðar, eldri borgara í Brún og Prjóna-bóka-kaffið á Degi íslenskrar tungu. Sjá nánar hér á vefnum...

Friðrik Erlingsson, skáld og handritshöfundur, er fæddur 4. mars 1962 í Reykjavík og útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983. Hann var lagahöfundur og gítarleikari í hljómsveitunum Purrki Pillnikk 1981 – 1983 og Sykurmolunum frá 1986 – 1988, á plötunum Einn moli’ á mann og Life’s too good, og einn af stofnendum Smekkleysu.

Friðrik starfaði sem myndskreytir, grafískur hönnuður, texta- og hugmyndasmiður, ljósmyndastjóri, leikstjóri og hönnunarstjóri á ýmsum auglýsingastofum, frá 1982-1990, en fyrsta skáldsaga hans, Benjamín dúfa, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1992 og Verðlaun Skólamálaráðs  Reykjavíkurborgar 1993.

Bókin hefur verið gefin út á Norðulöndum, Ítalíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Friðrik skrifaði handrit að samnefndri kvikmynd, sem frumsýnd var 1995 og hefur hlotið verðlaun víða um heim. Friðrik var tilnefndur til Norrænu

barnabókaverðlaunanna árin 1992 og 1995. Skáldsagan Vetrareldur kom út 1995.

Friðrik skrifaði viðtalsbókina Alltaf til í slaginn, við Sigurð Þorsteinsson, skipstjóra og Lífskraftur, við séra Pétur Þórarinsson og Ingu Siglaugsdóttur í Laufási, báðar gefnar út hjá Vöku-Helgafelli, 1994 og 1996.

Friðrik fékk sérstök verðlaun Evrópskrar dómnefndar (EBU Prix Géneve Europe /

Special Prix de Jury) 1994 fyrir handrit að sjónvarpsmyndinni Góða ferð, Sveinn

Ólafsson, sem var útgefin 1998 sem skáldsaga með sama nafni. Sú bók var gefin út í Bretlandi árið 2006 undir titlinum Fish in the Sky, af Meadowside Children’s books, og sama forlag gaf út skáldsögu Friðriks, Bróðir Lúsifer, út. á Íslandi 2000, með titlinum Boy on the Edge. Candlewick Press hefur nýlega (2014) gefið báðar

bækurnar út í Bandaríkjunum. IBBY tilnefndi Friðrik á heiðurslista sinn árið 2012

fyrir þýðingu hans á Fish in the Sky.

Friðrik þýddi tvær bækur Monu Nilsson-Brannstrom, Tsatsiki og Mútta og Tsatsiki og Pápi, en fyrir þá fyrrnefndu hlaut hann þýðingarverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 2002. Hann þýddi einnig fyrir Námsgagnastofnun (nú Menntamálastofnun) styttar endursagnir heimsbókmenntanna úr ensku fyrir miðstig: Drakúla, Innrásin frá Mars, Fýkur yfir hæðir, Rómeó og Júlía (í pentometer), Silas Marner, Hvítklædda konan, Glæstar vonir, Baskerville-hundurinn.

Friðrik hefur samið fjölda söngtexta m.a. Í nótt, við lag Ingva Þórs Kormákssonar,

sem Eivör Pálsdóttir flutti í undankeppni Eurovision 2003; ort við lög eftir Gunnar Þórðarson, m.a. Íslands barn, Vernd, Annar en ég er og Minning þín. Auk þess hefur hann samið texta fyrir helstu dægurlagasöngvara þjóðarinnar einsog Jóhönnu Guðrúnu, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Ellen Kristjánsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur, Björgvin Halldórsson, Leone Tinganelli, Borgardætur og Frostrósir. Friðrik gerði nýja þýðingu að söngleiknum Les Miserables, Vesalingarnir, fyrir Þjóðleikhúsið 2012.

Friðrik hefur skrifað handrit að sjónvarpsmyndum og kvikmyndum, kennt

handritaskrif við Kvikmyndaskóla Íslands, verið sjálfstæður handritaráðgjafi og sótt námskeið í handritagerð hjá Mick Casale, Martin Daniel og setið workshop með Philip LaZebnik á North-by-Northwest í Borgundahólmi 2006. Hann skrifaði handrit að gamanmyndinni Stuttur Frakki, 1993; handrit að Benjamín dúfu, 1994; handrit að sex sjónvarpsmyndum fyrir RÚV, (Sunnudagsleikhúsið) m.a. Heimsókn, sem var tilnefnd til Eddu verðlauna fyrir bestu sjónvarpsmynd; handrit að fyrstu tölvugerðu teiknimyndinni, Litla lirfan ljóta, sem framleidd var af Caoz, en fyrir það fyrirtæki skrifaði hann einnig handrit að tölvugerðri teiknimynd í fullri lengd, Þór – Hetjur Valhallar, sem frumsýnd var haustið 2011. Sú kvikmynd er byggð á bókinni Þór í Heljargreipum eftir Friðrik sem Veröld gaf út 2008, en önnur bókin um Þór, Leyndarmál guðanna, kom út hjá Veröld haustið 2010. Friðrik var tilnefndur til Eddu verðlauna 2012 fyrir ‘Þór-Hetjur Valhallar’ í flokknum ‘Besta handrit.’ Friðrik þróaði hugmyndina og skrifaði frumhandrit að teiknimyndinni ‘Lói - Þú flýgur aldrei einn,’ sem Gunhil framleiðir og verður frumsýnd jólin 2017.

Friðrik skrifaði handrit og libretto (söngtexta) að óperunni Ragnheiði, sem Gunnar Þórðarson gerði tónlist við. Óperan var frumflutt í konsertformi í Skálholtskirkju í ágúst 2013 og hlaut sá flutningur Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarviðburður ársins. Friðrik var einnig framkvæmdarstjóri á uppfærslu óperunnar í Skálholti. Óperan var sviðsett í Íslensku óperunni í mars 2014 og varð mest sótta ópera Íslensku óperunnar frá upphafi. Friðrik var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir Handrit ársins, en uppfærslan hlaut Grímuverðlaun sem Sýning ársins, fyrir Tónlist ársins og Elmar Gilbertsson tenór hlaut verðlaun sem Söngvari ársins.

 

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.