Fyrirlestrar í héraði: Hvað kenndi Snorri í Reykholti og Ólafur hvítaskáld í Stafholti?
12. apríl 2016

Fyrirlestrar í héraði: Hvað kenndi Snorri í Reykholti og Ólafur hvítaskáld í Stafholti?

Bókhlaða Snorrastofu

Kristján Árnason prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands flytur.

Kristján Árnason Kristján Árnason

Fyrirlesturinn er samvinnuverkefni Snorrastofu og Miðaldastofu Háskóla Íslands og fer fram í bókhlöðunni. (Sjá auglýsingu)

Fjallað verður um einkenni menntunar þeirrar, sem þeir frændur  Snorri og Ólafur buðu verðandi skáldum og skrifurum í menntastofnunum sínum – Reykholti og Stafholti.  Í Reykholti var væntanlega kennd  Snorra-Edda -  kennslubók í norrænni skáldskaparlist og líklegt er að Ólafur og Sturla bróðir hans hafi verið meðal nemenda í Snorra í Reykholti. Ólafur rak síðar skóla í Stafholti og finnst Kristjáni líklegt að þar hafi farið fram kennsla í málvísi og því sem nú heitir ritlist eða skapandi skrif, þ.e.a.s. í Stafholti hafi verið skáldaskóli, a.m.k. „skáldskaparfræðideild“ eða „-námsbraut“.

Um efni fyrirlestursins segir Kristján sjálfur: „Stundum er spurt hvort Snorri Sturluson hafi kunnað latínu, - svo þjóðleg teljast fræði hans í Eddu- og sagnalist. Hins vegar velkist enginn í vafa um að bróðursonur hans, Ólafur hvítaskáld Þórðarson, hafi verið lærður í heimstungunni. Menn gera ráð fyrir að á ferðum sínum erlendis hafi hann lært margt, og segir hann reyndar sjálfur frá því í málfræðiritgerð sinni að Valdimar Danakonungur hafi kennt sér eitt og annað um rúnir. Helgi Þorláksson hefur í nýrri Skírnisgrein leitt að því líkum að Snorri hljóti að hafa lært að minnsta kosti samsvarandi því sem einu sinni var kallað fjórða bekkjar latína þegar hann var í Odda. En norræn skáldskaparfræði hljóta líka að hafa verið kennd á þeim bæ. Snorri hélt því áfram í Reykholti og Ólafur í Stafaholti, sá síðarnefndi með viðbót úr fræðum Donatusar og Pricianusar.“

Kristján Árnason er fæddur 1946. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi í almennum málvísindum frá Edinborgarháskóla 1977. Hann hefur starfað við kennslu og rannsóknir, lengst af sem prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Kristján hefur ritað fjölda ritgerða og fræðibóka sem birst hafa hér á landi og á alþjóðavettvangi.

Fyrir um ári síðan var þessi fyrirlestur á dagskrá Snorrastofu en var frestað vegna óveðurs. Nú er þess að vænta að öll hamlandi óveður séu um garð gengin og næði fáist til að skoða menntastofnanir héraðsins á miðöldum. Að venju verður boðið til kaffiveitinga og umræðna á fyrirlestrinum og aðgangseyrir er kr. 500.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.