Fyrirlestrar í héraði: Hvenær varð Hákon gamli konungur Íslendinga?
28. mars 2017

Fyrirlestrar í héraði: Hvenær varð Hákon gamli konungur Íslendinga?

Bókhlaða Snorrastofu

Sverrir Jakobsson Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson sagnfræðingur flytur.

Umræður og kaffiveitingar.

Aðgangseyrir kr. 500

Efni fyrirlestrarins:

Stjórnmálasaga Íslands á 12. og 13. öld er dramatísk og hefur gegnt miklu hlutverki í sögulegu minni þjóðarinnar. Undanfarna áratugi hefur almennur áhugi á þessu tímabili farið minnkandi. Orðræða þjóðfrelsisbaráttunnar er úr sögunni en í stað hennar hefur ekki myndast ný söguskoðun. Samtímis hefur þetta tímabil fengið mikla athygli erlendra fræðimanna þannig að Íslandssaga miðalda er orðin alþjóðleg fræðigrein. Gjá virðist ríkja á milli fræðilegrar orðræðu og almennrar söguskoðunar.

Rætt verður hvernig hægt er að meta pólitíska þróun á þessu tímabili í ljósi eftir- eða síð-þjóðernishyggju (post-nationalism). Meðal þess sem verður til umræðu er hvernig íslenskt samfélag þróaðist frá upptöku tíundar 1096 sem leiddi af sér nýja hugsun um vald. Reynt verður að rýna í upphaf og þróun valdasamrunans og hvernig átök höfðingja við kirkjuna í upphafi 13. aldar tengdust honum. Sérstaklega verður vikið að samspili mismunandi heimilda á þessu tímabili, Hákonar sögu, annálum og einstökum heimildum sem síðar urðu hluti af Sturlungu-safnritinu.

Sverrir Jakobsson er fæddur í Reykjavík 1970. Hann hefur verið prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands frá 2014. Hann hefur m.a. ritað bækurnar Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400 (2005), Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu (2015) og Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281 (2016) auk þess sem hann er einn útgefenda Hákonar sögu sem kom út í tveimur bindum á vegum Hins íslenzka fornritafélagið árið 2013 (Íslenzk fornrit 31 og 32).

Einkennismyndin er eftir Knud Berglien og sýnir Birkibeina flýja með Hákon Hákonarson undan Böglum. Fengin af Wikipediu (Mayer Bruno skannaði).

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.