Fyrirlestrar í héraði: List- og verkgreinar í grunnskóla: Nauðsyn eða afgangsstærð?
19. apríl 2016

Fyrirlestrar í héraði: List- og verkgreinar í grunnskóla: Nauðsyn eða afgangsstærð?

Bókhlaða Snorrastofu

Þriðjudaginn 19. apríl 2016 kl. 20:30. Kristín Á. Ólafsdóttir, kennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytur.

Í fyrirlestrinum,  verður byggt á rannsókninni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar sem gerð var á 20 íslenskum grunnskólum í fjórum sveitarfélögum. Rannsóknin kom út í árslok 2014 og að henni unnu á þriðja tug fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Fyrirlesarinn skoðaði sérstaklega, ásamt fleirum í rannsóknarhópnum, list- og verkgreinar í skólunum og í þeirri athugun voru viðhorf nemenda, starfsmanna og foreldra til námsgreinanna könnuð. Í fyrirlestrinum verður einnig sagt frá öðrum nýlegum rannsóknum á list- og verkgreinum í íslenskum grunnskólum. Gildi og markmið greinanna verða rædd og einnig litið aftur um rúma öld til að rifja upp það sem forkólfar í skólamálum sögðu þá um menntun hugar og handa. Þeir sem gengu í barnaskóla upp úr miðri síðustu öld kannast kannski við að þessar greinar hafi verið kallaðar „aukagreinar“. Getur verið að þess gæti enn í viðhorfum foreldra grunnskólabarna og jafnvel innan skólanna?

Kaffiveitingar og umræður. Aðgangur kr. 500

Þessi fyrirlestur var áður á dagskrá í febrúar s.l. en var þá frestað. Hann fellur vel að komandi Barnamenningarhátíðum, bæði þeirri sem nú stendur yfir í Reykjavík og ekki síður hinni, sem fyrirhuguð er í Reykholti 3. maí næstkomandi. Þar koma saman nemendur miðstigs í skólum Vesturlands til að tjá og upplifa sögu miðalda. Áhersla verður lögð á skapandi listir og verkmenningu, sem tengjast Snorra Sturlusyni og sögu staðarins..

Kristín Á. Ólafsdóttir býr í Véum í Reykholti og er kennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar kennir hún meðal annars verðandi kennurum leiklist í skólastarfi og tjáningu í töluðu máli. Kristín er menntaður leikari frá  Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og hefur bæði leikið og leikstýrt auk þess að vinna við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi. Hún lauk meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 2007.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.