Fyrirlestur í dymbilviku: Glíman við Hallgrím
22. mars 2016

Fyrirlestur í dymbilviku: Glíman við Hallgrím

Bókhlaða Snorrastofu

Mörður Árnason íslenskufræðingur Mörður Árnason íslenskufræðingur

Passíusálmarnir eru viðfangsefnið í fyrirlestri Snorrastofu í kyrru viku, þriðjudaginn 22. mars næstkomandi. Mörður Árnason kynnir útgáfu sína á Passíusálmunum, sem er 92. útgáfa/prentun sálmanna frá því þeir komu fyrst út á Hólum árið 1666, fyrir hálfri fjórðu öld, og gerir grein fyrir vinnubrögðum sínum og samstarfsmanna sinna við verkið. Hann drepur einnig á hugmyndalega stöðu skáldverksins og setur fram hugmyndir og tilgátur um tilbrigði við lúterskan rétttrúnað með hliðsjón af nokkrum stöðum í sálmunum. Á eftir verður spjallað um sálmana, skáldið og aðrar persónur í verkinu, höfundinn og samtíma hans.

Mörður er íslenskufræðingur, ritstjóri þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar,  einn útgefanda Grágásar og Vídalínspostillu; aðstoðarmaður við útgáfu Eddukvæða; Sögu daganna og Merkisdaga á mannsævinni eftir Árna Björnsson; Byggingararfleifðar- og Laufásbóka Harðar Ágústssonar o.fl. Hann hefur starfað á Orðabók Háskólans, við blaðamennsku, sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra og alþingismaður frá 2003 til 2013; er nú sjálfstætt-starfandi með aðsetur á ReykjavíkurAkademíunni.

Fyrirlesturinn, sem fellur í röð Snorrastofu, Fyrirlestrar í héraði,  hefst að venju kl. 20:30 og að honum loknum boðið til kaffiveitinga. Lysthafar geta eignast nýju Passíusálmaútgáfuna á vildarverði. Aðgangseyrir er kr. 500

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.