Fyrirlestur í héraði á Reykholtshátíð
27. júlí 2019

Fyrirlestur í héraði á Reykholtshátíð

Bókhlaða Snorrastofu

Um bóndann Gísla Súrsson í Haukadal.

Bjarni Guðmundsson prófessor emeritus á Hvanneyri flytur.

Í erindinu verður fjallað um búskap Gísla Súrssonar og fólks hans í Haukadal við Dýrafjörð. Skoðað verður baksvið búskaparins og leitað fyrirmynda að honum frá ættarslóðum Gísla og forfeðra hans í Súrnadal í NV-Noregi, auk þess sem lesið verður í búskaparfrásagnir Gísla sögu og stuðst við fornleifarannsóknir sem gerðar voru í Haukadal undir lok 19. aldar. Reynt verður að skoða líklega búskaparhætti Gísla og þeirra Haukdæla í ljósi landkosta þar í dalnum og með hliðsjón af þekktum búskaparháttum í Haukadal á seinni tímum.  Að öðru leyti verður erindið byggt á búfræði og almennri vitneskju um landbúnað, og þá einkum mjólkurframleiðslu, á norðlægum slóðum.

Dr. Bjarni Guðmundsson er fæddur á Kirkjubóli í Dýrafirði 18. ágúst 1943. Hann stundaði nám í Núpsskóla, Hvanneyrarskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi og við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum í Svíþjóð.

Auk þess að sinna fjölmörgum trúnaðarstörfum í þágu samfélagsins, bæði í heimahéraði og á landsvísu kenndi Bjarni við Bændaskólann á Hvanneyri og skipaði þar prófessorsstöðu frá árinu 2000 til 2013 er hann lét þar af störfum. Þá hefur Bjarni staðið fyrir uppbyggingu Búvélasafnsins, síðar Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri og árlegum sýningum þess, einkum á árunum eftir 1995. Forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins var Bjarni frá stofnun þess 2007 þar til fyrir fáum árum.

Hann er handhafi Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu frá árinu 2005 og hlaut Starfsmerki UMFÍ árið 2011.

Bjarni hefur í frístundum tekið þátt söng og annarri tónlist, mest í kórum og hljómsveitum en líka að nokkru með vísnasöng. Hann gaf út geisladiskinn Að sumarlagi,  með eigin lögum við ljóð þekktra sveitaskálda árið 2006.

Þá hefur Bjarni fengist við alþýðumyndlist, einkum teikningu og ritskreytingar og er áhugamaður um byggða- og atvinnusögu.

Eftir Bjarna liggja allnokkur rit og meðal þeirra má nefna:

  • ... og svo kom Ferguson 2009,
  • Alltaf er Farmall fremstur 2011 og
  • Frá hestum til hestafla 2013, búnaðarsögulegur þríleikur út gefinn af Uppheimum á Akranesi;
  • Íslenska sláttuhætti 2015 útg. Opna og Hið ísl. bókmenntafélag;
  • Konur breyttu búháttum 2016 útg. Opna og Landb.safn Íslands;
  • Íslenskir heyskaparhættir 2018 útg. Opna og Hið ísl. bókmenntafélag.
  • Árið 2011 kom einnig út ritið Ungmennastarf um aldarskeið. Ungmennafélagið Íslendingur 1911-2011 sem Bjarni tók saman. Við starfslok hjá LbhÍ 2013 skilaði Bjarni sitt hvorri kennslubókinni, Heyverkun (101 bls.) og Verkun og geymsla korns (48 bls.).

 

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.