"Fyrirlestur Snorrastofu á Reykholtshátíð: &quote;Það mikið elskaða skáld Hallgrímur Pétursson&quote;"
23. júlí 2016

"Fyrirlestur Snorrastofu á Reykholtshátíð: &quote;Það mikið elskaða skáld Hallgrímur Pétursson&quote;"

Bókhlaða Snorrastofu

Margrét Eggertsdóttir Margrét Eggertsdóttir

Í Bókhlöðu Snorrastofu laugardaginn 23. júlí 2016 kl. 13. Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor flytur. Fyrirlesturinn er hluti raðarinnar, Fyrirlestrar í héraði.

Titill erindisins er tilvitnun í fyrstu útgáfu Hallgrímskvers en þar segir: Nokkrir lærdómsríkir sálmar og andlegir kveðlingar, velflestir ortir af því mikið elskaða og nafnfræga þjóðskáldi vorrar tungu, sáluga sr. Hallgrími Péturssyni. Þeim til fróðleiks, huggunar og uppvakningar sem iðka vilja.

Þessi litla bók var prentuð á Hólum árið 1755 og hefur að geyma sálma og kvæði Hallgríms Péturssonar, þ.e. annan kveðskap hans en Passíusálmana. Í fyrirlestrinum verður sagt frá fræðilegri heildarútgáfu á verkum Hallgríms sem unnið hefur verið að á undanförnum árum á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig verður fjallað um kveðskap hans, bæði trúarlegan og veraldlegan. Rímur og Passíusálmar eru gjörólíkar bókmenntagreinar sem eiga þó eitt og annað sameiginlegt þegar vel er að gáð. Meðal annars verður fjallað um afstöðu Hallgríms til áheyrenda eða lesenda, viðhorf hans til bókmenntahefðarinnar og söguefnisins.

Margrét Eggertsdóttir er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún lauk cand. mag. prófi í íslenskum bókmenntum árið 1989 og stundaði nám við háskólann í Tübingen 1991–1992. Var ráðin til starfa við Árnastofnun árið 1992 og hefur unnið þar síðan ef undanskilin eru árin 1999–2002 þegar hún var lektor í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla. Margrét hefur ásamt öðrum starfsmönnum stofnunarinnar unnið að fræðilegri heildarútgáfu á verkum sr. Hallgríms Péturssonar. Hún hefur skrifað fjölda greina um bókmenntir og handrit síðari alda. Margrét lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2005. Doktorsritgerð hennar sem hefur titilinn Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar kom út árið 2014 í enskri þýðingu Andrews Wawn.

Myndina af Hallgrími Péturssyni gerði Hafliði Hallgrímsson tónskáld,

birt með góðfúslegu leyfi hans.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.