Fyrirlestur um hönnun Snorrastofu og Reykholtskirkju
26. júlí 2025

Fyrirlestur um hönnun Snorrastofu og Reykholtskirkju

Bókhlaða Snorrastofu

Laugardaginn 26. júlí kl. 13 flytur Garðar Halldórsson arkitekt fyrirlestur í Snorrastofu um hönnun sína á byggingu Reykholtskirkju og Snorrastofu, menningar- og miðaldastofnunar í Reykholti í Borgarfirði. Fyrirlesturinn, sem er bæði hluti af Reykholtshátíð og fyrirlestraröðinni „Fyrirlestrar í héraði“, er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Það er löngu kominn tími til að efnt yrði til dagskrár þar sem hugmyndafræðinni á bak við hönnun Reykholtskirkju-Snorrastofu verði lýst af höfundinum sjálfum, Garðari Halldórssyni. Byggingarnar hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir vandaða hönnun, þar sem saman fara falleg húsakynni og úthugsað notagildi. Náði Garðar með hönnun sinni að  tengja saman með listilegum hætti menningu, sögu og nútíma byggingarlist.  Lagður var hornsteinn að byggingunni árið 1988 og var kirkjuhlutinn vígður árið 1996. Byggingu Snorrastofuþáttar húsnæðisins lauk síðan árið 2000 og eru því 25 ár liðin frá því að byggingu hússins lauk. Húsnæði Snorrastofu var formlega vígt þann 29. júlí 2000 við hátíðlega athöfn á Reykholtshátíð, og meðal gesta voru norsku konungshjónin Haraldur V. og Sonja, auk forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, og Dorrit Moussaieff. 500 manns sóttu viðburðinn þar sem menning, saga og tengsl Íslands og Noregs voru í forgrunni. Þetta var stór stund í sögu Snorrastofu, sem hóf starfsemi fimm árum fyrr.

Garðar Halldórsson nýtur mikillar virðingar sem arkitekt, enda hefur hann haft djúpstæð áhrif á byggingarlist og opinberar framkvæmdir á Íslandi í áratugi. Hann fæddist í Reykjavík árið 1942 og lauk stúdentsprófi frá MR árið 1962. Hann stundaði síðan nám við Rheinisch-Westfälische Technische Hochschule í Aachen í Þýskalandi, þar sem hann útskrifaðist árið 1968. Í kjölfar námsins kom hann til starfa hjá Húsameistara ríkisins og embætti húsameistara gegndi hann síðan frá 1979 til 1996, eða þar til embættið var lagt niður. Hafði hann við störf sín við stofnunina haft yfirumsjón með mörgum af mikilvægustu opinberu byggingum landsins. Frá 1997 hefur hann starfrækt eigin teiknistofu í Reykjavík.

Garðar hefur komið að hönnun fjölmargra merkra bygginga, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Fyrir utan Snorrastofu og kirkjuna í Reykholti teiknaði hann Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg. Þá kom hann að endurbyggingu og hönnun á forsetasetrinu á Bessastöðum í samvinnu við Þorstein Gunnarsson.

Kynnir á viðburðinum verður séra Geir Waage, pastor emeritus.

 

 

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.