Tónleikar: Kór Neskirkju
1. júní 2019

Tónleikar: Kór Neskirkju

Reykholtskirkja

Kór Neskirkju heldur vortónleika í Reykholtskirkju laugardaginn 1. júní 2019 kl. 17.

Stjórnandi kórsins er Steingrímur Þórhallsson organisti.

Efnisskráin að mestu helguð skáldinu Snorra Hjartarsyni, en kórinn gefur um þessar mundir út hljómdisk með kórverkum eftir stjórnandann, Steingrím Þórhallsson, við ljóð Snorra.

Aðgangur ókeypis og allir eru velkomnir.

Hljómdiskurinn inniheldur kórverkið Tólf blik og tónar sem Steingrímur Þórhallsson, tónskáld og stjórnandi kórsins óf úr tólf ljóðum Snorra. Kórnum þótti því við hæfi að heimsækja Borgarfjörð, heimslóðir Snorra, sem var fæddur á Hvanneyri vorið 1906 og alinn upp í Andakíl og í Stafholtstungum.

Efnisskrá þessara tónleika ber þessa merki að kórinn hefur verið upptekin af lögum Steingríms við ljóð Snorra. Helmingur efnisskrárinnar er helgaður köflum úr kórverkinu og hinn helmingurinn ýmsum verkum eftir íslensk og erlend tónskáld frá mismunandi tímabilum.

Kór Neskirkju er safnaðarkór undir stjórn Steingríms Þórhallssonar og eru starfandi kórfélagar ríflega 45. Kórinn tekur virkan þátt í öllu helgihaldi í Neskirkju, syngur við messur og flytur margs konar verk á stórhátíðum og á tónleikum. Kórinn hefur flutt margar af helstu perlum kirkjutónlistar.

Kór Neskirkju fer alla jafna í tónleikaferðir á vorin, ýmist út fyrir landsteinana eða innanlands. Tónleikaferðir á erlendri grundu eru orðnar sex og oftast hefur leiðin legið til Ítalíu.

Steingrímur Þórhallsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónskóla Þjóðkirkjunnar, Pontificio Istituto di Musica Sacra og loks Listaháskóla Íslands þaðan sem hann lauk meistaragráðu í tónsmíðum árið 2018. Frá haustinu 2002 hefur Steingrímur starfað sem organisti og kórstjóri við Neskirkju jafnframt því sem hann fæst við tónsmíðar og semur hann jöfnum höndum samtímatónlist og tónlist fyrir kvikmyndir. Eftir hann liggur fjöldi kórverka og einnig verk fyrir smærri og stærri hljóðfærahópa.

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.