„Þó hon enn lifir“ – um nýjar þýðingar eldfornra og síungra eddukvæða
24. mars 2018

„Þó hon enn lifir“ – um nýjar þýðingar eldfornra og síungra eddukvæða

Reykholtskirkja

Málþing Snorrastofu laugardaginn 24. mars 2018, kl. 13—17:30 í Reykholtskirkju.

Snorrastofa efnir til málþings um nýjar þýðingar eddukvæða í tilefni af þýðingum Knuts Ødegård, sem komu út í tvímála útgáfu í fjórum bindum 2013-2016. Auk þess verður fagnað og vakin athygli á  öðrum þýðingum og útgáfum, sem nýlega hafa komið út og á málþinginu verður varpað ljósi á hvernig nýjar þýðingar geta birt sígild ritverk í samtímalegu ljósi.

Prófessor Lars Lönnroth í Gautaborg gaf út nýja þýðingu allra eddukvæða á sænsku árið 2016, og árið 2014 kom út endurskoðuð þýðing prófessor Carolyne Larrington í Oxford á eldri þýðingu hennar sem birtist fyrst 1996. Árið 2014 kom út hjá Hinu íslenska fornritafélagi ný útgáfa Eddukvæða í tveim bindum með rækilegum skýringum og formála. Útgáfuna önnuðust Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason. Árið 2010 kom út ljóðabálkurinn Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju þar sem hún notar efni Skírnismála til nýrrar skáldlegrar túlkunar með skírskotun til samtímans.

Í fyrri hluta dagskrárinnar kynna Knut Ødegård og prófessor Jon Gunnar Jørgensen norsku þýðinguna, en í seinni hluta gera prófessor Lars Lönnroth og dr. Carolyne Larrington grein fyrir sínum þýðingum. Þá spjallar Gerður Kristný um endurvinnslu sína á eddukvæðnu Skírnismál í Blóðhófni og Vésteinn Ólason, sem unnið hefur að undirbúningi málþingsins, flytur inngangserindi um það, hvernig eddukvæðin urðu heimsbókmenntir.

Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur á sér langa og glæsilega sögu, og nýlega var Þorgerður kjörin heiðursborgari Reykjavíkur fyrir störf sín. Kórinn mun flytja þjóðlega tónlist með tengsl við fornan kveðskap.

Málþingið fer að mestu leyti fram á íslensku, en Lars Lönnroth og Carolyne Larrington munu tala hvort á sínu móðurmáli.

Þýðingar íslenskra fornbókmennta á erlend tungumál eiga sér merkilega sögu. Þýðingar á önnur norræn mál hafa þar nokkra sérstöðu vegna náins skyldleika málanna. Rannsóknir á þessu sviði hafa beinst bæði að hreinum textafræðilegum vandamálum og hugmyndafræði. Afstaða til textanna hefur verið mismunandi eftir löndum og tímabilum, oft nátengd hugmyndum um uppruna og þjóðerni. Þeir sem þýða eddukvæði eiga sér fyrirrennara allt frá 17. öld, ríka hefð sem getur verið bæði innblástur og hindrun á frjálsri túlkun. Á 19. öld voru þýðingar eddukvæða mikilvægar fyrir þjóðernisrómantískar hugmyndir og sjálfsmynd Norðurlandaþjóða, en samtímis hlaut efnið mikla útbreiðslu og athygli í Evrópu, ekki síst vegna tónsmíða Richards Wagner. Á 20. öld voru margs konar sveiflur í túlkun og áhrifum eddukvæða. Það er því einkar fróðlegt fyrir Íslendinga að fylgjast með þýðingarstarfi 21. aldar. Málþinginu í Reykholti er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á þessu starfi með því að velja til kynningar þrjár ágætar og áhrifamiklar þýðingar og þýðendur þeirra. Það fer fram í Reykholtskirkju og allir eru velkomnir að njóta málþingsins, aðgangur er ókeypis.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.