Ánægjuleg Reykholtshátíð að baki 21. ágúst 2019

Ánægjuleg Reykholtshátíð að baki

Eins og venjulega prýddi Reykholtshátíð sumarið hér í Reykholti. Hún var haldin dagana 26.-28. júlí með tónleikum alla dagana, fyrirlestri Snorrastofu á laugardegi og hátíðarmessu á kirkjudegi Reykholtskirkju. Staðurinn stendur í þakkarskuld við þá, sem staðið hafa vaktina og borið hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd þessarar árlegu hátíðar. Hún hefur svo lengi fyrir óbilandi þrautseigju og útsjónarsemi listafólksins, sem að henni standa hverju sinni. Heimamenn hafa lagt henni lið eftir því sem aðstæður hafa leyft og á hátíðinni skapast sá andi, sem mótast hefur á staðnum um aldir, þar sem saman fléttast menning, menntun og skapandi listir.

Um tónleika hátíðarinnar verður best lesið á vef Reykholtshátíðar, en fyrirlestur Snorrastofu á hátíðinni flutti dr. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri um bóndann Gísla Súrsson í Haukadal. Í hátíðarmessu þjónuðu sr. Geir Waage og sr. Flóki Kristinsson fyrir altari og sr. Kristinn Björnsson vígslubiskup prédikaði. Sigurgeir Ragnarsson sellóleikari og Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari fluttu tónlist við athöfnina, Reykholtskórinn söng við orgelleik Dóru Ernu Ásbjörnsdóttur. Upptaka frá messunni var flutt í Ríkisútvarpinu sunnudaginn 18. ágúst s.l. Að lokinni messu var gestum boðið í kirkjukaffi í safnaðar- og sýningarsalnum.

Fyrsti stjórnandi Reykholtshátíðar var Steinunn Birna Ragnarsdóttir, þá tók Auður Hafsteinsdóttir við keflinu og nú síðustu árin hefur Sigurgeir Ragnarsson staðið í stafni.

Reykholtshátíð hefur meðal annars notið styrkja úr Sóknaráætlun landshluta og Snorrastofa væntir þess af heilum hug að jarðvegi menningarinnar verði ávallt þannig við haldið að hátíðinni verði tryggður þar öruggur sess, svo sem henni ber.  Árið 2018 hlaut hátíðin tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Myndir (Guðl. Óskarsson)

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.